miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sprettarar vilja leiðrétta meintan misskilning

19. október 2014 kl. 23:10

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, formaður Spretts, ræðir við þingfulltrúa í hléi.

Tilkynning frá stjórn hestamannafélagsins Spretts.

Stjórn hestamannafélagsins Spretts hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni vegna atburðarrásarinnar sem átti sér stað á Landsþinginu. Um leið og stjórn Spretts harmar hvernig mál þróuðust  vilja þeir koma því að framfæri að þeir hafi ekki lagt pressu á stjórn LH að skipta um landsmótsstað fyrir 2016.

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Stjórn Spretts vill leiðrétta þann misskilning sem virðist vera í loftinu um að Sprettur eigi að einhverjum hluta upphaf eða sök í þeirri atburðarás sem átti sér stað dagana fyrir Landsþing LH og á þinginu sjálfu. Einhverjir vilja einnig halda því fram að Sprettur hafi lagt pressu á stjórn LH að skipta um landsmótsstað fyrir 2016 en það er langt frá því að vera rétt.

Eins og Sprettarar vita og við höfum upplýst á heimasíðu okkar og á fésbóksíðu okkar þá sóttum við um að halda Landsmót 2018. Sá ferill hefur verið þó nokkur og lauk með kynningu fyrir stjórn LH þann 7 október s.l. að viðstöddum bæjarstjórum Kópavogs og Garðabæjar.

Það sem gerðist í kjölfarið var að mánudaginn 13. október fékk formaður Spretts símtal frá formanni LH (nú fyrrverandi) sem spurði hvort Sprettur væri tilbúin í að halda Landsmót 2016 ef til þess kæmi að samningar myndu ekki nást við Skagfirðinga. Formaðurinn svaraði því játandi eftir að hafa ráðfært sig við varaformann og framkvæmdastjóra. Sprettarar ákváðu að skorast ekki undan þessu verkefni ef til þess kæmi.

Það var svo á fimmtudaginn 16 október sem formaður Spretts fékk aftur símtal um að stjórn LH hefði samþykkt samhljóða að slíta viðræðum við Skagfirðinga og hefja viðræður við Sprett.

Stjórn Spretts og landsþingsfulltrúar harma hvernig mál þróuðust á Landsþingi LH um helgina og eigum það örugglega sameiginlegt með langflestum hestamönnum landsins. Hins vegar ber okkur skylda sem hestamönnum að ná saman takti aftur og sá hugur kom fram á stuttum fundi formanna allra hestamannafélaga landsins, sem haldinn var eftir afsögn formanns LH á laugardaginn. Formannafundur verður haldinn n.k. laugardag og svo verður Landsþingi LH haldið áfram þann 8 nóvember.“