föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sprettarar senda stjórn LH tóninn

5. mars 2015 kl. 14:24

Frá opnunarhátíð Landsmóts 2014.

Aðalfundur Spretts telur aðstöðu til stórmótahalds afar takmörkuð á Hólum í Hjaltadal.

Félagsmenn hestamannfélagsins Spretts lýsa yfir áhyggjum af ákvörðun LH að halda Landsmót á Hólum í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins á dögunum. Í ályktuninni stendur:

,,Aðalfundur Hmf. Spretts haldinn 25. febrúar 2015, lýsir yfir áhyggjum af þeim farvegi sem stjórn L.H. hefur komið Landsmóti hestamanna í með þeirri ákvörðun sinni að óska eftir að mótið verði haldið að Hólum 2016 þrátt fyrir að þar sé aðstaða til stórmótahalds afar takmörkuð. Telur fundurinn að svo óvarlega megi ekki fara með það fjöregg sem Landsmót hestamanna er."

Stjórn LH sagði af sér vegna málefna landsmótssvæða á Landsþingi 2014 sem haldið var á haustdögum. Þá hafði stjórnin ákveðið að slíta viðræðum við Gullhyl um að halda Landsmót í Skagafirði þar sem hún taldi forsendur ekki vera fyrir hendi. Var þá ákveðið að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Sprett um að halda Landsmótið 2016.

Í byrjun desember ákvað nýskipuð stjórn LH hins vegar að ganga aftur til samninga við Gullhyl um að halda Landsmót 2016 á Hólum í Hjaltadal.