þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sprengja er sérstök hryssa

30. júní 2014 kl. 19:30

Brynja og drottningin Sprengja.

Brynja Amble Gísladóttir keppir á sínu fyrsta Landsmóti.

,,Ég er mjög ánægð með keppnina,” segir Brynja Amble Gísladóttir eftir sýningu sína á Sprengju frá Ketilsstöðum í forkeppni ungmennaflokks.

,,Þjálfunin á Sprengju hefur gengið upp og niður, bæði vegna veikinda og annarra þátta í tamningunni. Merin er mjög sérstök eins og flest afkvæmi móður hennar, Ljónslappar frá Ketilsstöðum. Þau eru ákveðin og vita hvað þau vilja. Það vill oft verða þannig að hrossin leggja oft línurnar áður en byrjað er að eiga við þau. Það er mjög gaman að vinna með þannig hross,” segir Brynja ennfremur. Hún fór með tvær merar í úrtöku hjá hestamannafélaginu Sleipni, Sprengju og Spes frá Ketilsstöðum.

Sú síðarnefnda hafði verið tekin inn mánuði fyrir keppni og náðu þær góðum árangri. Ákveðið var þó að fara ekki með hana á þetta mót. ,,Þær eru allar drottningar sem þarf að koma fram við af virðingu og hlusta eftir því hvenær þær eru tilbúnar til samstarfs,” segir Brynja sem hefur aldrei keppt á landsmóti áður en hún byrjaði að keppa í fyrra.

Sprengja er ekki heldur með mikla keppnisreynslu og myndi þessi árangur þeirra Brynju teljast mjög góður með tilliti til þess hversu keppnisreyndir hestar og knapar eru í þessum sterka ungmennaflokki.