miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spennandi stóðhestur

Jens Einarsson
27. apríl 2010 kl. 10:44

Með bláa blóðið í æðunum

Þrjú kynbótahross náðu einkunn inn á LM2010 á fyrstu kynbótasýningu ársins, sem haldin var á Sauðárkróki um liðna helgi. Þar á meðal var stóðhesturinn Penni frá Glæsibæ í Skagafirði, undan Parker frá Sólheimum og Spennu frá Glæsibæ.

Penni er spennandi stóðhestur fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er hann glæsilegur í útliti: Tinnusvartur, léttbyggður, lofthár og frambyggingin afbragð. Hann er með 9,5 fyrir samræmi og 9,0 fyrir framhluta. Lökustu þættir sköpulags eru fætur og prúðleiki, upp á 7,0. Penni er klárhestur, alla vega kynntur sem slíkur enn sem komið er. Hann er með 9,0 fyrir tölt og fegurð, en 8,5 fyrir aðrar gangtegundir, nema skeið.

Ættir Penna eru þó ekki síður áhugaverðar. Móðurafinn er Sörli frá Sauðárkróki, sem liggur nánast í augum uppi þegar horft er á hestinn. Sveinsætt er líka í föðuættinni, því Parker er undan Hervari frá Sauðárkróki. Bláa blóðið svellur í æðum þessa hests. En það eru líka aðrir bragðmiklir hestar sem koma fyrir í ættartréinu. Má þar nefna Hersi frá Stóra-Hofi, Stjarnason frá Bjóluhjáleigu, sem hefur gefið nokkur afgerandi klárhross í gegnum dætur sínar. Fræg eru Glampi frá Vatnsleysu, Parker frá Sólheimum og systkinin undan Bertu frá Vatnsleysu: Filma frá Árbæ, Gauti og Brjánn frá Reykjavík.

Þá má geta þess að Spenna er sammæðra Sval frá Glæsibæ, sem var faðir gæðingsins Gýmis frá Vindheimum í Skagafirði, auk margra annarra góðra hrossa. Og svo má ekki gleyma Hrafni frá Holtsmúla, sem á stóran skerf í Penna hinum svarta.