fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spenna við auknar kröfur

16. apríl 2015 kl. 12:38

Það getur verið gott að æfa það að gefa hestinum slakan taum inn á milli í þjálfuninni. Mynd/Helga Thoroddsen

Algeng viðfangsefni í þjálfun reiðhrossa.

Nú hefur viljinn aukist hjá Fölskva og við gangsetningu og auknar kröfur hefur spennan stigmagnast hjá honum. Hvernig er hægt að komast hjá því að þetta gerist?

Í gegnum tamningu og gangsetningu er stundum verið að biðja hestinn um að framkvæma hluti sem honum finnast erfiðir og þá getur komið upp spenna. Ef hestinum hefur verið kennt rétt í byrjun að slaka á og hann kann það þá ætti knapinn að geta sótt slökun til hestsins þegar hann þarf á því að halda. Ef hesturinn verður spenntur þá þarf knapinn að fara í grunninn og rifja upp slökunaræfingar. Besta vísbending þess að hesturinn sé 100% rólegur er ef knapinn getur riðið honum á slökum taumi, helst á fleiri gangtegundum en bara feti, án þess að hann fari að æða eða flýta sér. Því getur verið gott að æfa það að gefa hestinum slakan taum inn á milli í þjálfuninni og það er mikil umbun fyrir hann. Einnig að stilla kröfum í hóf án þess þó að láta spennuna í hestinum stoppa áframhald þjálfunarinnar af. Stundum þarf knapinn að vera fylginn sér og hjálpa hestinum af ákveðni í gegnum verkefni sem honum finnst erfitt og getur gert hann spenntan. Þá er mikilvægt að umbuna þegar árangri er náð, hrósa hestinum og jafnvel fara af baki. Þegar kemur upp spenna hjá hesti þá þarf knapinn fyrst og fremst að byggja upp traustið, fá hestinn til að samþykkja kröfurnar og viðhalda ætíð leiðinni til slökunar.

Fjallað er um algeng viðfangsefni í þjálfun reiðhrossa í 2. tbl. Eiðfaxa sem kom út í febrúar. Áskrifendur geta nálgast blaðið rafrænt hér. Hægt er að gerast áskrifandi að Eiðfaxa í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is