sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spenna vegna Landsmóts

17. október 2014 kl. 22:50

Jónína Stefánsdóttir talskona Gullhyls, Axel Ómarsson framkvæmdastjóri og Haraldur Þórarinsson formaður LH.

Snarpar umræður um umdeilda ákvörðun stjórnar.

Nokkur hiti var í þingfulltrúum Landsþings þegar málefni Landsmóts var rædd í dag.

Formaður og stjórn LH lágu undir ámælum vegna vinnubragða sinna við hætta við að halda Landsmót 2016 á Vindheimamelum í Skagafirði. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi stjórnar þann 7. október og tilkynnt forsvarsmönnum Skagfirðinga á símafundi sl. þriðjudag. Um leið var ákveðið að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Sprett varðandi Landsmót 2016 og við hestamannafélagið Fák um Landsmót 2018.

Haraldur Þórarinsson formaður LH fór yfir aðdraganda og ástæður ákvörðunarinnar. Axel Ómarsson framkvæmdastjóri fór yfir framkvæmd og rekstur Landsmóts sumarsins og lýsti framtíðarsýn sinni á viðburðinum.

Nokkrir þingfulltrúar tóku til máls í umræðum og voru nokkrir harðorðir í garð stjórnar LH. Jónína Stefánsdóttir, talskona Gullhyls, sem fór yfir samskipti félagsins við stjórn LH og taldi rökin fyrir hinni skyndilegu stefnubreytingu óljós og vinnubrögð stjórnar ódrengilega. Í máli hennar kom fram að félagið hefði nú þegar lagt til kostnað við markaðssetningu Landsmóts 2016 í Skagafirði og ferðaþjónustubændur í Skagafirði hefðu þegar tekið við bókunum gistiplássa yfir mótsdagana.

Tíu tillögur er varðar Landsmót voru lagðar fyrir þingið. Afgreiðsla og áframhaldandi umræður munu fara fram í fyrramálið.