föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spaði frá Barkarstöðum

18. júlí 2019 kl. 00:05

Spaði frá Barkarstöðum knapi: Helga Una Björnsdóttir

Fulltrúi Íslands í flokki sex vetra stóðhesta

 

 

Nú á sama tíma og landslið Íslands var kynnt til sögunnar var sagt frá því hvaða kynbótahross fara fyrir Íslandshönd á heimsleikanna. Ekki næst alltaf að senda út hæst dæmdu hrossin í hverjum flokki þar sem eigendur þeirra eru ekki tilbúnir að senda þau úr landi, þar sem þau hafa mikið gildi sem kynbótagripir, og eða þá að sala á þeim sé ekki örugg. Fáir þora að taka áhættuna á því að fara erlendis með óselda gripi.

Það er þó mikilvægt að við sendum á heimsleikana góða gripi í kynbótasýningar. Eiðfaxi ætlar að fjalla um öll þau hross sem við sendum til kynbótadóms.

Í flokki sex vetra stóðhesta verður fulltrúi Íslands, Spaði frá Barkarstöðum. Ræktandi er Sveinbjörn Sveinbjörnsson en hann er eigandi ásamt Petru Björk Mogensen.

Spaði er undan Orra frá Þúfu í Landeyjum og Væntingu frá Hruna.

Orra þarf vart að kynna fyrir hestamönnum, einn allra frægasti stóðhestur seinni tíma, og einn af þeim hestum sem á hvað stærsta erfðahlutdeild í stofninum. Spaði er einn af hæst dæmdu stóðhestum undan Orra en einungis Garri frá Reykjavík og Gaumur frá Auðsholtshjáleigu hafa hlotið hærri aðaleinkunn í kynbótadómi. Móðir Spaða er eins og áður segir Vænting frá Hruna, undan Aroni frá Strandarhöfði og Þrá frá Kópareykjum, en sú var undan Kolfinni frá Kjarnholtum.  Erlingur Erlingsson sýndi Væntingu í hennar hæsta dóm á Landsmótinu á Hellu 2008, hlaut hún þá í aðaleinkunn 8,24 fimm vetra gömul.

Vænting hefur farið vel af stað sem ræktunarhryssa. Þegar þetta er ritað á hún 9 afkvæmi, 6 þeirra eru á tamningaraldri og fimm hafa komið til dóms. Fjögur þeirra hafa hlotið 1.verðlaun og er Spaði þeirra hæst dæmdur. Af öðrum þekktum afkvæmum má nefna Vísi frá Helgatúni sem Hulda Gústafsdóttir hefur verið að keppa á í fimmgangi nú að undanförnu með lofandi árangri.

Knapi á Spaða undanfarinn tvö ár hefur verið Helga Una Björnsdóttir, en hún mun annast Spaða á Heimsmeistaramótinu og sjá um að koma honum á framfæri. John Kristinn Sigurjónsson sýndi Spaða fjögurra vetra og þá strax í 1.verðlaun. Var hann sýndur án skeiðs og hlaut m.a. 9,0 fyrir tölt og vilja og geðslag.

Spaði fór í sinn hæsta dóm á Sörlastöðum í vor þegar Helga Una sýndi hann í 8,41 fyrir sköpulag, 8,86 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,68. Hæst hlaut hann einkunnina 9,5 fyrir vilja og geðslag. Þá hlaut hann 9,0 fyrir tölt, skeið og hófa.

Einungis Þór frá Torfunesi og Spaði frá Stuðlum eru með hærri aðaleinkunn í flokki sex vetra stóðhesta í heiminum í ár. Spaði ætti því að verða, ef allt gengur upp, glæsilegur fulltrúar Íslands í flokki sex vetra stóðhesta.

 

Sköpulag

 

Höfuð

8

Fínleg eyru - Vel borin eyru

Háls/herðar/bógar

8.5

Reistur - Mjúkur - Háar herðar

Bak og lend

8.5

Löng lend - Góð baklína

Samræmi

8.5

Hlutfallarétt

Fótagerð

8

Öflugar sinar

Réttleiki

8

Hófar

9

Þykkir hælar - Hvelfdur botn

Prúðleiki

8

Sköpulag

8.41

Kostir

 

Tölt

9

Rúmt - Taktgott - Há fótlyfta - Mjúkt

Brokk

8.5

Rúmt - Skrefmikið

Skeið

9

Ferðmikið - Öruggt

Stökk

8.5

Ferðmikið - Teygjugott

Vilji og geðslag

9.5

Fjör

Fegurð í reið

8.5

Mikið fas

Fet

8.5

Taktgott - Skrefmikið

Hæfileikar

8.86

Hægt tölt

8

Hægt stökk

7.5