miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sómahesturinn Nói frá Stóra-Hofi

16. júlí 2019 kl. 19:50

Daníel Jónsson og Nói frá Stóra-Hofi

Kynbótahross Íslands á HM

 

 

Nú á sama tíma og landslið Íslands var kynnt til sögunnar var sagt frá því hvaða kynbótahross fara fyrir Íslandshönd á heimsleikanna. Ekki næst alltaf að senda út hæst dæmdu hrossin í hverjum flokki þar sem eigendur þeirra eru ekki tilbúnir að senda þau úr landi, þar sem þau hafa mikið gildi sem kynbótagripir, og eða þá að sala á þeim sé ekki örugg. Fáir þora að taka áhættuna á því að fara erlendis með óselda gripi.

Það er þó mikilvægt að við sendum á heimsleikana góða gripi í kynbótasýningar. Eiðfaxi ætlar að fjalla um öll þau hross sem við sendum til kynbótadóms.

Við byrjum á þeim hesti sem er fulltrúi Íslands í flokki stóðhesta sjö vetra og eldri, Nóa frá Stóra-Hofi. Ræktandi Nóa er Bæring Sigurbjörnsson.

Knapi á Nóa hér á Íslandi hefur jafnan verið Daníel Jónsson og sýndi hann Nóa í vor. Knapi á honum á HM verður hins vegar Árni Björn Pálsson þar sem Daníel sýnir tvo stóðhesta fyrir Svíþjóð. Má hann því ekki sýna Nóa þar sem strangar reglur gilda um einangrun íslensku hrossanna.

Nói er undan Illingi frá Tóftum og Örk frá Stóra-Hofi, en hann er fæddur árið 2008 og er því ellefu vetra.

Illingur frá Tóftum faðir Nóa kom fyrst fram fjögurra vetra þá sýndur af Magnúsi Trausta Svavarssyni og fór strax í fyrstu verðlaun. Daníel Jónsson sýndi Illing í hans hæsta dóm í aðaleinkunn 8,73. Illingur hefur reynst ágætur kynbótahestur og er Nói hans hæst dæmda afkvæmi. Undan Illingi eru 45 hross sýnd í kynbótadómi og er hann með 113 stig í kynbótamatinu. Illingur er í eigu Ninni Bjärrenholt og er staðsettur í Svíþjóð.

Örk frá Stóra-Hofi, móðir Nóa, er arfgerðargreind CA og því klárhryssa. Örk er undan Hrímbaki frá Hólshúsum og heiðursverðlaunahryssunni Hnotu frá Stóra-Hofi. Undan Örk hafa verið sýnd 7 hross í kynbótadómi og sex þeirra hlotið 1.verðlaun. Nói er þeirra hæst dæmdur en sammæðra honum er t.d. Alvar frá Stóra-Hofi sem er í Þýska landsliðinu ásamt knapa sínum Oliviu Ritschel. Olivia varð heimsmeistari á honum árið 2017 í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum ungmenna. Alvar er undan Aroni frá Strandarhöfði. Einnig má nefna Þór frá Stóra-Hofi undan Arion frá Eystra-Fróðholti en Þór vakti mikla athygli á síðastliðnu landsmóti þá fimm vetra gamall og eins þegar hann mætti í kynbótadóm í vor.

Nói kom fyrst fram fjögurra vetra gamall og fór strax í 1.verðlaun. Hann stóð efstur í flokki fjögurra vetra stóðhesta á Landsmóti í Reykjavík árið 2012 og setti á sama tíma heimsmet í þeim flokki, þegar hann hlaut í aðaleinkunn 8,51. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,60 þar sem hæst bar einkunninn 9,0 fyrir skeið og vilja og geðslag.

Nói fór í sinn hæsta dóm nú í vor þegar hann hlaut í aðaleinkunn 8,73. Draupnir frá Stuðlum er eini sjö vetra eða eldri stóðhesturinn sem hærri dóm hefur hlotið í ár. Nói hlaut fyrir sköpulag 8,68, fyrir hæfileika 8,75 og í aðaleinkunn 8,73. Hlaut hann m.a. 9,5 fyrir skeið og vilja og geðslag og 9,0 fyrir háls,herðar og bóga, fótagerð, hófa og prúðleika. Nói á 152 afkvæmi tvö þeirra sýnd í kynbótadómi og bæði í 1.verðlaun.

Nói er geðprýðishestur með góð gangskil. Skeiðið er hans aðalsmerki en töltið er taktgott og mjúkt. Nói verður flottur fulltrúi Íslenskrar ræktunar á heimsleikunum og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig samstarf hans og Árna Björns mun ganga.