laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sölusýning Reiðhöllinni Flúðum

22. febrúar 2010 kl. 08:12

Sölusýning Reiðhöllinni Flúðum

Föstudaginn 12 febrúar sl. var haldin sölusýning í nýju reiðhöllinni á Flúðum. Höllin er staðsett er á nýju félagssvæði hestamannafélagsins Smára.  Þetta er í annað sinn sem slík sölusýning er haldin á Flúðum í vetur.  Sýningin tókst í alla staði mjög vel og mættu um 100 manns til að sjá hvað væri í boði.  Á sýningunni voru sýnd hross allt frá góðum reiðhestum upp í efnilega og góða keppnishesta.  Yfir 20 hross voru sýnd á sýningunni.

Þulur á sýningunni var Steindór Guðmundsson tamningamaður og alþjóðlegur íþróttadómari.  Fórst honum hlutverkið einkar vel úr hendi og eins og honum er einum lagið, glens og grín inn á milli þess sem hann lýsti hestum á sýningunni af góðri þekkingu.  Bæði knapar og áhorfendur ánægðir með hans framlag og ber að þakka það.

Félagssvæði Smára er svæði þar sem svona sölusýningar eru nýjar af nálinni.  Aðstandendur þeirra eru þó á því að þetta sé komið til að vera.  Til marks um þann áhuga og virkni í tamningum og hrossarækt á svæðinu má benda á þó nokkurn fjölda heimasíða hrossaræktanda sem eru lifandi og skemmtilegar.  Má m.a. nálgast þær síður inn á www.smari.is  og fleiri munu bætast við á næstunni.

Öll hross sem komu fram á sölusýningunni munu koma fram á hestasölusíðunni www.hestasala.is.  Þar má nálgast myndir og nánari lýsingu á hverju hrossi fyrir sig.  

Næsta sölusýning er fyrirhuguð í apríl og mun hún verða auglýst nánar þegar nær líður.

Að sölusýningunum standa eftirfarandi tamninga –og hrossaræktarbú:

·         Langholtskot
·         Unnarholtskot
·         Auðsholt II
·         Efra-Langholt
·         Jaðar
·         Myrkholt
·         Eyði-Sandvík

Með von um að sem flestir láti sjá sig á næstu sölusýningum.