miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SöluFengur, nýr miðlægur gagnagrunnur fyrir hestasölur

3. janúar 2012 kl. 11:33

Ingimar Baldvinsson, bílasali á Selfossi og hrossabóndi á Hólaborg.

Mun fækka milliliðum og lækka verð, segir Ingimar Baldvinsson

Ingimar Baldvinsson, bílasali á Selfossi og hrossabóndi á Hólaborg, hefur kynnt hugmynd fyrir Félagi hrossabænda og Jóni Baldri Lorange, forstöðumanni WorldFengs. Sem felur í sér að opna sameiginlegan gagnagrunn fyrir hrossabændur og hestasöluaðila, sem yrði tengdur WorldFeng. Hugmyndin hefur fengið vinnuheitið "SöluFengur".

Ingimar segir að eftir því sem hann hafi kynnst betur umhverfi hestasölu í Íslandshestaheiminum, innan lands og utan, hafi hann sannfærst um nauðsyn þess að auðvelda kaupendum og seljendum leið til að nálgast upplýsingar beint hver frá öðrum.

„Verð á ódýrari og miðlungshrossum er of hátt hér á landi,“ segir Ingimar. „Meðal annars vegna þess að milliliðir leggja oft á tíðum of mikið ofan á söluverðið. Ef erlendir kaupendur, og íslenskir líka sem þekkja ekki mikið til, gætu fundið áreiðanlegar upplýsingar á einum stað myndi það fækka milliliðum. Kaupandinn kæmist fyrr í samband við seljandann og verðið myndi í mörgum tilfellum lækka.

Gagnagrunnar sem þessir eru þekktir í öðrum viðskiptum, til dæmis hjá bílasölum. Hrossabændur og hestasöluaðilar sem myndu tengjast "SöluFeng" yrðu að greiða eitthvert gjald fyrir þátttökuna og uppfylla lágmarksskilyrði um faglega kunnáttu, og sjá til þess að upplýsingar séu réttar og uppfærðar reglulega. Ég er sannfærður um að þetta myndi örva sölu á miðlungs- og ódýrari hrossum og yrði tekjustofn fyrir WorldFeng,“ segir Ingimar.