mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sögulegt afrek Jóa Skúla

16. ágúst 2019 kl. 11:00

Jóhann er þrefaldur heimsmeistari árið 2019

Sigurbjörn Bárðarson sigraði þrefalt árið 1993 en þá á fimmgangshesti

 


Að öðrum ólöstuðum má halda því fram að Jóhann R. Skúlason sé knapi mótsins á nýafstöðnu heimsmeistaramóti. Hann varð þrefaldur heimsmeistari í tölti, fjórgangi og í samanlögðum fjórgangsgreinum. Auk þess að hljóta reiðmennskuverðlaun FEIF fyrir frábæra reiðmennsku á Finnboga frá Minni-Reykjum. Það var reyndar annar knapi sem vann sama afrek í ungmennaflokki og varð þrefaldur heimsmeistari. Það var hún Franziska Müser á Speli frá Njarðvík sem einnig sigraði þrefalt.

Á heimsmeistaramóti í Herning í Danmörku árið 2003 var byrjað að veita gull í samanlögðum fjórgangsgreinum og samanlögðum fimmgangsgreinum. Reyndar hafði það verið gert einu sinni áður, en það var á Evrópumeistara mótinu 1987 í Austurríki. Frá árinu 1989 til 2001 var krýndur samanlagður heimsmeistari. Þannig varð sá knapi heimsmeistari sem bestan heildarárangur átti í mótinu.

Frá því að byrjað var að krýna heimsmeistara, í samanlögðum fjórgangsgreinum, hefur enginn knapi orðið þrefaldur heimsmeistari, þ.e. sigrað tölt, fjórgang og samanlagðan sigur. Sami knapi hefur hinsvegar áður unnið bæði tölt og fjórgang og má segja að það sé nokkuð algengt.

Fyrstur til að sigra bæði tölt og fjórgang var Þjóðverjinn Bernd Vith á Evrópumeistaramótinu 1977 sem haldið var í Skiveren í Danmörku. Hestur hans var Fagri-Blakkur frá Hvítárbakka. Þá hafa einnig unnið þetta afrek Hans Georg Gundlach á Skolla árið 1983, Andreas Trappe á Týr frá Rappenhof árið 1991, Jolly Schrenk á Ofeig 1993 og 1995 og Stian Pedersen og Jarl frá Miðkrika árið 2007.

Á þessu má því sjá að Jóhann Skúlason er fyrsti knapinn sem sigrar þrefalt í fjórgangsgreinum. Sigurbjörn Bárðason landsliðsþjálfari sigraði reyndar þrefalt árið 1993 á Höfða frá Húsavík. Hann varð þá heimsmeistari í fimmgangi, gæðingaskeiði og samanlagður sigurvegari mótsins. Jóhann er fyrstur Íslendinga til að sigra bæði tölt, fjórgang og samanlagðan fjórgangssigur á heimsmeistara- eða evrópumóti. Aldeilis frábær árangur og því má segja að um sögulegt afrek sé að ræða.