sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sænskur þingmaður í hrossabúskap á Íslandi

Jens Einarsson
23. september 2010 kl. 11:37

Gäran Montan kaupir Krók í Ásahreppi

Gäran Montan, þingmaður og hrossaræktandi í Svíþjóð og á Íslandi, hefur keypt jörðina Krók í Ásahreppi. Á Króki var til allmargra ára rekið hrossaræktarbú og tamningastöð og á jörðinni er stór reiðhöll og allstórt hesthús, sem komið er til ára sinna. Jörðin er um 270ha að stærð. Áður en Gäran keypti jörðina var búið að skipta henni upp í tíu spildur, sem allar höfðu lögbýlisrétt. Sala á spildunum gekk ekki eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir og var hún seld Gäran í heilu lagi. Planið er að setja upp hrossaræktarbú og tamningastöð á Króki.

Gäran situr á þingi fyrir Moderata flokkinn í Svíþjóð. Hann og fjölskylda hans hafa síðan 1992 átt og rekið hinn glæsilega hestabúgarð Margaretahof í Svíþjóð. Þar rækta þau íslenska hesta og á búgarðinum  hafa verið haldin mörg stórmót, reiðnámskeið og kennslusýningar. Dætur hans Filippa og Alexandra eru báðar starfandi tamningamenn og hestaþjálfarar á Margaretahof. Fjölskyldan á meðal annars hinn fræga stóðhest Rökkva frá Hárlaugsstöðum. Fjölskyldan hefur um árabil ræktað hross á Íslandi undir ræktunarnafninu Margrétarhofi. Um 50 hross eru nú kennd við það ræktunarnafn.

Reynir Örn Pálmason, tamningamaður og reiðkennari, hefur verið ráðinn bústjóri á Króki. Hann hefur í fjölda ára verið í samstarfi við Montan fjölskylduna. Starfaði á Margaretahof í átta ár, frá 1996 til 2004.