fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snilldarhross

6. apríl 2016 kl. 23:10

Hringur frá Gunnarsstöðum var sýndur af Þorarni Ragnarssyni.

Stóðhestaveislan.

Þá er komið að því að kynna næsta skammt þeirra snilldarhrossa sem munu koma fram á Stóðhestaveislu í Samskipahöllinni á laugardag.

Ræktunarbú ársins 2015, Syðri-Gegnishólar mun heiðra sýninguna. Gæðingavalið í Syðri-Gegnishólum er hreint magnað og á laugardag munu þau Bergur og Olil og þeirra fólk sýna okkur rjómann af þessum gæðingaflota.

Moldóttir stóðhestar eru ekki á hverju strái, en á laugardag mun þó einn slíkur koma fram; hinn ungi og efnilegi Arthúr frá Baldurshaga. Til að fullkomna litaflóruna, þá munum við einnig fá í heimsókn hinn jarpvindótta Glymsson, Biskup frá Ólafshaga, fasmikill og flinkur töltari þar á ferð.
Gaumssonurinn Flaumur frá Sólvangi hefur vakið athygli á mótum í vetur og hann mun sýna gestum á laugardag nákvæmlega af hverju það er.
Ræktunarbúið í Torfunesi mun að sjálfsögðu eiga sína fulltrúa á veislunni og þar verður fremstur í flokki hinn stórglæsilegi Eldur frá Torfunesi.Verður gaman að sjá þá félaga, Eld og Sigurbjörn Bárðarson, leika listir sínar í höllinni.
Við fáum góða viðbót í rauðskjótta gæðingaflotann, Álfasteinssonurinn Hafsteinn frá Vakursstöðum mun gleðja augað og þeir sem til þekkja segja hestinn vera í fantaformi þessa dagana.
Annar hestur sem er einnig í toppformi er Sæmundur frá Vesturkoti. Hann mun taka nokkur létt spor fyrir veislugesti, eins og honum einum er lagið.
Knapinn á Sæmundi, Þórarinn Ragnarsson, ætlar sér ekki að koma gangandi til veislunnar, því auk Sæmundar mætir hann með hinn stórglæsilega Hring frá Gunnarsstöðum sem vakti mikla athygli á veislunni í fyrra og sá hefur sko ekki versnað á milli ára.

Miðasala á veisluna fer fram í Líflandi Reykjavík og Borgarnesi, Top Reiter, Ástund og hjá Baldvin og Þorvaldi á Selfossi. Ekki missa af veislunni, tryggið ykkur miða í tíma!