fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Smitvörnum er ábótavant, mikið kæruleysi í gangi" -

18. maí 2010 kl. 09:18

„Smitvörnum er ábótavant, mikið kæruleysi í gangi" -

Sigríður Björnsdóttir er dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun. Sem slíkur hefur hún umsjón með heilbrigði og velferð íslenskra hrossa. Það hefur ekki farið framhjá neinum hestamanni að hinn smitandi hósti sem gengur yfir hrossastofninn þessi misserin eins og eldur í sinu, setur áætlanir manna úr skorðum. Móta- og sýningahald liggur að mestu leyti niðri en samt stefnum við að því að halda landsmót eftir rúmar fimm vikur. Er það raunhæft? Hvernig barst þessi ófögnuður hingað til lands?

Eiðfaxi sló á þráðinn til Sigríðar eða Systu og tók stöðuna á málinu.

Eiðfaxi: Hver er staðan á kvefpestinni frá þínum bæjardyrum séð?
„Staðan er sú að þessi faraldur er enn að ganga yfir. Smitið hefur væntanælega náð hámarki fyrir nokkru síðan og bera mörg hross einkenni þess nú um stundir.  Veikindin koma alla jafna ekki fram fyrr en  tveim til fjórum vikum eftir smit. Góðu fréttirnar eru þær að einkennin eru vægari nú með vorinu, sérstaklega í þeim hrossum sem eru mikið eða alveg úti.  Hreina loftið virðist því draga mjög úr smitálaginu og þau verða þá vonandi fljótari að jafna sig líka.“ 

Eiðfaxi: Hefurðu trú á að tímasetning landsmóts verði endurskoðuð?
„Framkvæmdanefnd Landsmóts tekur allar ákvarðanir varðandi Landsmót. Það eru fyrirhugaðir fundir fljótlega og þar sem farið verður yfir stöðuna.“    

Eiðfaxi: Hvað með allar tamningastöðvarnar sem eru nýbúnar að fá hóstann?
„Þær eru auðvitað í erfiðri stöðu varðandi Landsmótið. Á móti kemur að hross sem veikjast núna fá væntanlega vægari einkenni og verða vonandi fljótari að jafna sig. Nú hafa menn reynsluna og vita að hvíld og hreint loft eru lykilatriði.“ 

Eiðfaxi: Nú hefur maður heyrt af nokkrum sem farnir voru að þjálfa aftur en bakslag síðan komið og hrossin veikst aftur?
„Já það er rétt og það eru vissulega mikil vonbrigði sérstaklega þar sem um er að ræða hesta sem voru komnir vel af stað í þjálfun aftur. En Mette Mannseth var búin að vara við þessu í viðtali á www.eidfaxi.is fyrir um mánuði síðan. Þessi hross ættu þó ekki að lenda alveg á byrjunarreit aftur, þó einhver tími líði áður en þau að ná sér að fullu. Ég hvet menn til að hreinsa hesthúsin vel til að minnka smitálagið og hættuna á að sýkingin taki sig upp að nýju.“
 
Eiðfaxi: Er ekki hætta á að mönnum sé ýtt út í að byrja að þjálfa hrossin of snemma og það geti haft slæmar afleiðingar? Það eru jú miklir hagsmunir í húfi hjá mörgum varðandi landsmótið?
„Það hefur verið ákveðið að standa fyrir auka kynbótasýningum í kjölfar þeirra sem áður voru fyrirhugaðar. Það hlýtur að létta á og gefa fólki meiri tíma.“

Eiðfaxi: Hvað með frístundareiðmennina? Komast þeir í sleppitúrinn sinn?
„Það verður hver og einn að meta fyrir sína hesta. Sleppitúrinn er ekki ómissandi  ef vafi leikur á því hvort hrossin séu heilbrigð. Hósti er greinilegasta einkennið sem menn verða að taka alvarlega. Ég hvet hestamenn engu að síður til að koma hrossunum sem fyrst út í hreint loft og úr smitinu. Ef grunur leikur á veikindum þarf þó áfram að fylgjast með líðan þeirra. Sömuleiðis þarf nú sem endra nær að fyrirbyggja miklar fóðurbreytingar þegar hestunum er sleppt í sumarhagana.“

Eiðfaxi: Er komin einhver niðurstaða úr sýnum sem fóru til Svíþjóðar?
„Já, það eru komnar niðurstöður úr flestum þeim prófum sem hægt er að gera og búið að útiloka allar alvarlegustu hestaveirurnar sem leggjast á öndunarfærin. Það er í sjálfu sér dýrmætt  þó við séum ekki miklu nær um hvað þetta er nákvæmlega. Það er enn beðið niðurstaðna fyrir vægari veirusýkingar þar sem þau próf þurfti að setja upp sérstaklega. Það hafa líka farið sýni til Þýskalands sem beðið er eftir greiningu á auk þess sem við höfum verið í sambandi við greiningastöðvar í Bandaríkjunum og Frakklandi. En það er meira og minna allt það sama sem þessar rannsóknastofur bjóða upp á. Ég vil einnig geta þess að ekki er um hina illvígu kverkeitlabólgu að ræða enda benda eineknnin ekki til þess. Vægari streptókokkasýkingar eru hins vegar algengar í hrossum með einkenni veikinnar og er reiknað með að þar sé um kjölfarssýkingar að ræða.“

Eiðfaxi: Ef við gefum okkur að smitið hafi borist með manneskju inn í landið. Annað hvort í reiðtygjum, hönskum eða svipuðu. Er smitvörnum ábótavant hjá okkur? Erum við að sofna á verðinum?
„Já það er of mikið kæruleysi í gangi. Menn fara mikið á milli landa, halda námskeið, sýna hross o.fl. og fara beint úr slíkum störfum upp í flugvélina heim. Það er hætt við að smám saman dragi úr árvekninni eftir því sem þessar ferðir verða hversdagslegri. Ég óttast að reglur um smitvarnir séu ekki alltaf virtar, þ.m.t. bann við innflutningi á notuðum reiðtygjum og reiðhönskum.   Það eru einna helst mélin sem menn flytja með sér þó það sé bannað. Það virðist útbreiddur misskilningur að það dugi að frysta fatnað eða beislabúnað sem komið er með til landsins. Frysting er þó alls engin leið til sótthreinsunar enda betur til þess fallin að geyma smit.  Tollurinn sér um eftirlitið með banni við þessum innflutningi en mun seint uppgötva allt sem er á ferðinni. Það ríður á að hestamennirnir sjálfir passi upp á þennan mikilvæga þátt. Við höfum kannski verið of upptekin af útlendingum og ekki hamrað nógu mikið á þessu við Íslendingana sem eru að fara á milli landa. Fólk hefur kannski komist upp með að taka með sér ýmislegt inn í landið í mörg ár og sloppið með skrekkinn. En hættan er fyrir hendi og við sjáum að það þarf ekki mikið til að gríðarlegt tjón verði í kjölfar svoleiðis gáleysis.“

Eiðfaxi þakkar Sigríði kærlega fyrir spjallið og heldur áfram að fylgjast með gangi mála varðandi heilsufar hrossanna okkar.