miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smali áfram í Meistaradeild VÍS

Jens Einarsson
21. desember 2009 kl. 11:44

Ályktun FT hefur ekki borist til Meistaradeildar

Keppt verður í Smala í Meistaradeild VÍS í vetur. Eins og sagt frá frá í jólahefti Hesta&Hestamanna samþykkti aðalfundur FT ályktun þess efnis að skora á stjórn Meistaradeildarinnar að hætta keppni í Smala, vegna þess að um sé að ræða hraðagrein, sem útheimti mikið taumaskak á svo litlum velli.

Rúnar Þór Guðbrandsson, formaður Meistaradeildar VÍS, segir að ályktunin hafi ekki borist til sín, en málið hafi verið rætt, bæði innan stjórnar og einnig hafi hann rætt við allmarga knapa. Skoðanir þeirra séu mjög skiptar. Sumir vilji halda Smalanum inni og aðrir taka hann út. Rúnar segir þó ljóst að keppt verði í Smala í vetur. Búið sé að skipuleggja mótaröðina og semja við alla kostunaraðila. Útilokað sé því að gera breytingar á dagskránni, sem þegar hafi verið auglýst. Málið verði hins vegar tekið fyrir í vor.

Rúnar segir að einnig hafi verið rætt um hvort gera eigi breytingar á útfærslu á fimmgangi, með tilliti til aðstæða í Ölfushöllinni, en völlurinn er minni og þrengri en löglegur keppnisvöllur. Það sama gildi þar. Það sé mál sem verði að taka upp að vori. Fyrirvari til breytinga sé of skammur.