þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smalahesturinn

4. október 2019 kl. 08:00

Gísli Guðjónsson ritstjóri Eiðfaxa í smalamennskum með þrjá til reiðar og sá fjórði eltir

Ritstjórapistill úr nýútkomnu tölublaði Eiðfaxa

 

 

Eins og oft hefur komið fram, og dæmin sanna. Þá er íslenski hesturinn eitt fjölhæfasta hestakyn heimsins. Ekki nóg með það að hann búi yfir fimm mismunandi gangtegundum, sé breytilegur í stærð, litabreytni hans sé mikil, innan stofnsins rúmast bæði klárhestar og alhliðahestar og hann sé fyrir unga jafnt sem aldna. Þá eru þau hlutverk sem hann nýtist í margbreytileg. Nú þegar keppnis- og sýningatímabilinu er lokið taka við önnur verkefni.

Eitt af elstu hlutverkum hestsins, hér á landi, er að nýta hann til smalamennskna á haustin. Þeir sem nota hestinn til slíkra verka þekkja það vel að þar koma eðliskostir hans og þrautseigja í ljós. Smalahesturinn þarf að búa yfir ýmsum eiginleikum, til þess að hann teljist góður sem slíkur. Má því til stuðnings nefna eftirfarandi atriði. Mjúkt ganglag, ekki er gerð krafa um það að hann sé einhæfur töltari, brokk er einnig góð gangtegund til ferðalaga og það er flestum hestum eðlislægt að brokka í lengri ferðalögum. Valhopp eða hægt stökk nýtist einnig vel.

Smalahesturinn þarf að vera vinnufús og viljugur. Mikilvægt er þó að geðið sé ekki hlaðið ofríki því þannig hestar endast stutt í lengri fjallferðum. Betra er að hesturinn sé spennulaus og þjáll í geðslagi en tilbúinn að spretta úr spori þegar þess þarf. Mjúkur í beisli og sveigjanleiki eru eiginleikar sem eru ákaflega mikilvægir. Þá þarf fjallhesturinn að teymast vel í hendi, oft þarf að taka stökkið og eru smalar jafnvel með þrjá til fjóra til reiðar. Þá er mikilvægt að hestarnir teymist vel og séu tilbúnir að fylgja hinum eftir í misjöfnu landslagi. Síðast en ekki síst má nefna fótafimi en yfirleitt er verið að smala í breytilegu landslagi, bröttum brekkum og hlíðum og yfir ár og læki.

Mikilvægt er því að hesturinn kunni að ganga í misjöfnu landslagi og sé ekki dettinn. Þetta eru aðeins fáir af þeim eiginleikum sem hægt væri að telja upp, en eitt er víst að íslenski hesturinn sameinar alla þessa eiginleika. Þessa eiginleika ættum við jafnvel að halda hvað mest upp á, því þeir hafa skapað íslenska hestinum þær vinsældir sem raun ber vitni.

Í Eiðfaxa má finna ferðasögu fjallmanna sem leita svæðið inn að Arnarfelli hinu Mikla, ég vona að það falli lesendum tímaritsins vel að lesa slíka ferðasögu og um leið fræðast um landið okkar Ísland.

Gísli Guðjónsson - Ritstjóri Eiðfaxa