laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sleipnisbikar brekkunnar í Þóroddsstaði

29. júní 2012 kl. 14:25

Glæsihryssan Hilda frá Kvistum, undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum. Knapi Þórður Þorgeirsson.

Þóroddur frá Þóroddsstöðum hefur allt að bjóða sem ræktunarmenn girnast, hvort sem það eru alhliða garpar eða ofurhágeng klárross.

Ýmislegt bendir til að Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum fari heim með „Sleipnisbikar brekkunnar“ eftir Landsmótið í Reykjavík.

Laugarvatnsmenn hafa reyndar aldrei verið sérstaklega hrifnir af þeim bikar og verið á þeirri skoðun að ófaglærðir og aðrir minniháttar hrossaræktendur ættu ekki að vera með nefið of mikið ofan í því því hvað er gott og vont í hrossarækt. En Sleipnisbikar brekkunar ræður sínum dvalarstað og spyr hvorki kóng né prest.

Á LM2000 í Reykjavík sló Kolfinnur frá Kjarnholtum alla út af laginu með stórkostlegri afkvæmasýningu. Hann var þá í öðru sæti heiðursverðlaunahesta. Orri fékk Sleipnisbikarinn og heldur vel á honum. En augnablikið var Kolfinns.

Á morgun, laugardag, getum við átt von á að sjá viðlíka hóp. Það verður hópurinn undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum, sem er einn af fjórum stóðhestum sem sýndir eru til heiðursverðlauna á LM2012.

Nú er komið í ljós að Þóroddur býður upp á allt sem hrossaræktendur girnast: Flugrúma og getumikla alhliða gæðinga, ýkt klárhross með rosalegan fótaburð, fljúgandi kappreiðavekringa, og reiðhross og ferðahross fyrir almenning.

Hér á LM2012 í Reykjavík má sjá sýnishorn af þessu öllu. Efsti alhliða gæðingur inn á mót var hinn ungi Vörður frá Strandarhjáleigu, sem fataðist á skeiðinu í forkeppni og komst ekki í milliriðil. En hestagull hið mesta á allan hátt.

Grunnur frá Grund er í fjórða til fimmta sæti í A flokki gæðinga á LM2012 með 8,58 í einkunn. Hringur frá Skarði er alhliða garpur, sem er með 8,48 í kynbótadómi og 8,50 í A flokki. Hvatur frá Dallandi (8,40) og Hvessir frá Ábrú (8,34) eru fljúgandi alhliða gæðingar. Gjöf frá Vindási (8,34) ekki síðri og er í efstu sætum í 6 vetra flokki hryssna á mótinu.

Og fyrir þá sem vilja hágenga töltara og klárhesta þá verða í hópnum Þrumufleigur frá Álfhólum, sem er með 9,5 fyrir tölt og brokk og er í bráðri hættu að rota sig í hverju skrefi, Lord frá Vatnsleysu, sem er fjórgangsefni í hæsta gæðaflokki, sýndur í 5 vetra flokki hér á LM2012 og hefur fengið 9,0 fyrir brokk, stökk, vilja og fegurð, og 9,5 fyrir samræmi.

Og síðast en ekki síst ætti Hilda frá Kvistum að geta glatt augu fótaburðarfíkla. Hún er sýnd í 5 vetra flokki hryssna á LM2012 og er með 9,0 fyrir tölt og brokk, vilja, fegurð og hægt tölt. Sannkallað hestagull og stórefnileg keppnishryssa. Semsagt: Þóroddur er algjörlega með þetta! Spennandi sýning á laugardaginn.