mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skýrt markmið: Stefnir á sigur

18. janúar 2010 kl. 14:31

Skýrt markmið: Stefnir á sigur

Eyjólfur Þorsteinsson er þjálfari og reiðkennari í Hafnarfirði. Hann var nálægt því að sigra Meistaradeildina í fyrra og markmið hans er skýrt fyrir komandi tímabil: stefnir efst á toppinn og sigur í deildinni.
 
Eiðfaxi.is heimsótti Eyjólf í Hafnarfjörðinn í dag, þar sem hann er að temja og þjálfa ásamt unnustu sinni, Vigdísi Matthíasdóttur, og fylgdist með undirbúningi hans fyrir fyrsta mót tímabilsins, Smalann, sem verður í Ölfushöllinni 28.janúar næstkomandi.

Eyjó, hvernig hefur undirbúningurinn gengið?

„Bara vel. Ég var með nýja hesta í deildinni í fyrra og verð með þá sömu að mestu leyti í ár. Þeir eru allir til hérna í hesthúsinu hjá mér. Það eru Ögri frá Baldurshaga, Klerkur frá Bjarnanesi og Ósk frá Þingnesi. Síðan er ég með nýja hryssu sem ég stefni á að mæta með í Smalann, það er hún Dáð frá Steindórsstöðum og síðan er ég með nýjan skeiðhest, Vorboða frá Höfða, en í fyrra fékk ég Storð frá Ytra-Dalsgerði lánaða hjá Sveini Ragnarssyni.“

Hvert er þitt persónulega markmið í deildinni í vetur?

„Stefnan að sigra deildina núna. Ég er reynslunni ríkari eftir gott gengi í fyrra og hestarnir líka. Núna einbeiti ég mér að því að bæta það sem upp á vantaði í fyrra hjá mér, en það var kannski gæðingafimin og 100m skeiðið gegnum höllina.“

En fyrir liðið þitt, Málningu?

„Það er náttúrulega það sama, við félagarnir stefnum á efsta sætið í liðakeppninni eins og í fyrra.“

Hvernig leggst Smalinn í þig? Ertu farinn að æfa þig?

„Mér finnst smalinn góð grein og ég vil frekar hafa hana inni í deildinni en ekki. Ég er með Smalann í huga svona síðasta mánuðinn fram að móti en þjálfa hana kannski ekkert sérstaklega. Mín skoðun er sú að greinin geti verið mjög skemmtileg ef maður leggur metnað í að æfa sig og finna réttan hest í hana. Meira að segja getur hún gert hrossum mjög gott, eins og kom í ljós hjá mér í fyrra með Ósk frá Þingnesi. Ég prófaði hana nokkrum sinnum í brautinni og mér fannst losna um hana og þjálfunin bara gera henni gott. Þannig að ef maður æfir sig, þá verður þetta enginn tætingur.“

Hvaða hross ætlarðu að mæta með núna?

„Ég er að prófa unga hryssu sem við eigum, Dáð. Hún er ekki stór, frekar mjúkgeng og lipur og ég held að hún henti í þetta verkefni. Eigum við að setja upp braut og athuga það?“

Eyjó leggur á Dáð og blaðamaður röltir ásamt þeim skötuhjúum, Eyjó og Vigdísi út í reiðhöll þeirra Sörlafélaga. Þau skella upp nokkrum „hliðum“ og leggja spýtu á gólfið. Eyjólfur hitar hryssuna upp í rólegheitunum og prófar svo brautina. Dáð er mjúk og snögg að svara ábendingum og sýnist blaðamanni hún henta vel í þetta verkefni. Bíddu, drengurinn er klárlega búinn að vera að æfa sig!

„Æj, já ég nenni ekki að mæta óæfður. Hvorki í þessa grein né aðrar. Mér finnst skemmtilegast að koma tilbúin til leiks og vita nákvæmlega hvað ég er að fara að gera og hvers má vænta. Það er mjög gott að koma sér í gírinn fyrir veturinn með grein eins og Smalanum.“

Þú ætlar sem sagt að sigra Smalann, eins og í fyrra?

„Já, ég stefni að því alla vega,“ segir Eyjólfur að lokum og við röltum til baka. Það er nóg að gera hjá þeim Eyjólfi og Vigdísi og Eiðfaxi leyfir þeim að halda áfram að vinna.