laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skýr krafa frá hesthúseigendum

6. febrúar 2012 kl. 20:52

Skýr krafa frá hesthúseigendum

Hesthúseigendur í Víðidal fjölmenntu í félagsheimili Fáks í kvöld til að mótmæla hækkun á fasteignaskatti á hesthús. Við álagningu fasteignaskatta fyrir árið 2012 ákvað Reykjavíkurborg að hækka fasteignaskatt hesthúsa úr 0,2% af fasteignamati í 1,65% sem er rúm 700% hækkun og hefur valdið hesthúseigendum reiði. Til máls tóku Rúnar Sigurðsson formaður Fáks, Arnór Halldórsson, lögmaður LH og fyrir hönd borgarinnar var mættur Björn Blöndal aðstoðamaður borgarstjóra og sat hann fyrir svörum fundargesta. Óskar Bergsson var fundarstjóri.

Rúnar fór stuttlega yfir sögu málsins og einhuga afstöðu hestamanna gagnvart hækuninni, en hann sagði að ekki væri hægt að búa við breytinguna, hún væri aðför að hestaíþróttinni í heild. Borgin hefið ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart hesthúseigendum og að fundurinn færi fram á að borgin stöðvi innheimtu skattsins á meðan málin væru í vinnslu, en fyrir hesthúseigendum liggja gíróseðlar sem margir hafa gjalddaga nk. mánaðarmót.

Björn sagði að borgin vildi ekki vera í stríði við hestamenn. Það hefði hins vegar verið niðurstaða lögfræðinga að flokka hesthús með atvinnuhúsnæði, c-lið álagningar, og skattleggja sem slíkt. Borginni væri skylt að haga álagningu fasteignaskatts í samræmi við þá túlkun sem fram kemur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar. Hann benti á að skrifstofa borgarstjórnar hefði sent Alþingi bréf þar sem óskað væri eftir breytingu á fasteignalögum, þannig að hesthús væru aftur færð undir a-lið álagningar, en undir hana heyrir m.a. frístundarhús og sumarhús.

Hins vegar væri það mat lögfræðinga að ekki væri heimilt að stöðva innheimtuna og þar stæði hnífurinn í kúnni. Hann væri opin fyrir löglegum hugmyndum til að koma í veg fyrir það og borgin hefði hug á að leysa málin farsællega.

Fundargestum var greinilega heitt í hamsi, bentu á ósanngirni breytinganna, t.d. var spurt hvort ekki væri pottur brotinn þegar hesthúseigendum hefði ekki gefist kostur á að beita andmælarétti áður en gíróseðlarnir birtust. Spurt var um lagalegan grundvöll þess að skilgreina heshús á skipulögðu útivistasvæði sem atvinnuhúsnæði. Bent var á að hestamennska eykur hróður borgarinnar og færir fjármagn til hennar.

Farið var yfir marga þætti en Björn benti oft á að ef lögleg lausn fyndist til að leysa málin væri borgin opin fyrir öllum ábendingum. Hann sagðist ætla að beita sér fyrir því að málið yrði tekið upp á fundi á fimmtudaginn þar sem kannað yrði hvort einhverjar ábendingar væru færar til að leysa málið.

Í lok fundar samþykktu gestir svohljóðandi ályktun:

“Félagsfundur hestamannafélagsins Fáks mótmælir harðlega mörghundruð prósenta hækkun fasteignaskatts á hesthús í borginni.

Breytingin felur í sér rúmlega 700% hækkun og hefur valdið ótta, óvissu og reiði meðal hestamanna í borginni. Reykjavíkurborg hefur fallist á sjónarmið hestamanna um að hækkunin sé óeðlilega há og hefur óskað eftir því við Alþingi að lögum verði breytt.

Til þess að skapa frið á meðan málið er í meðförum þingsins er það krafa Fáks að innheimtuseðlar fasteignaskatt sem nú hafa verið sendur hestamönnum, verði dregnir til baka og innheimt verði 0,2% af fasteignamati eins og áður.”

Stjórn Fáks mun halda áfram að beita sér að fullum krafti í málinu og á fund á miðvikudag með innanríkisráðuneyti, sem fer með breytingar á lögum og reglugerðum, þar sem ályktunin verði lögð fyrir með kröfu um að lögin verði gerð afturvirk þannig að hesthús verði aftur skilgreind í sama flokk og frístundahús.