miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skynsamlegt að gera hlé á útflutningi hrossa

Jens Einarsson
9. júní 2010 kl. 13:19

Svipaður fjöldi fyrstu fimm mánuði ársins

Gunnar Arnarson, hrossaútflytjandi, segir að sennilega sé skynsamlegast að Íslendingar haldi að sér höndum í útflutningi á hestum í sumar. Of áhættusamt sé að flytja út hross sem hugsanlega séu smituð af hrossapestinni og kunni að veikjast í nýjum heimkynnum.

Gætum skaðað orðsporið

„Ég held að við ættum að bíða með frekari útflutning að sinni og sjá til fram í ágúst,“ segir Gunnar. „Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að flest hross í landinu eru veik og verða það í nokkrar vikur í viðbót. Þótt þetta sé ekki hættuleg veiki, alla vega að því er virðist, þá gæti það verið mjög neikvætt fyrir orðspor okkar ef hross frá Íslandi koma veik út. Það er ekki áhættunnar virði að mínu mati. Júní og júlí hafa yfirleitt verið rólegir mánuðir í útflutningi, þannig að skaðinn er minni heldur en við hefðum þurft að stoppa í haust eða í vetur. Ég býst við að hestapestin og frestun á Landsmóti komi til með að hafa neikvæð áhrif á heildar útflutninginn. En það er bara skellur sem við verðum að taka,“ segir Gunnar Arnarson.

Þess má geta að ekkert hross hefur verið flutt út frá því 8. Maí. Þá höfðu verið flutt út 465 hross til þrettán landa, sem er litlu minna en á sama tíma í fyrra, en þá höfðu verið flutt út 487 hross. Heildar útflutningur í fyrra var 1589 hross.