þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skrautgripur á leið í frumtamningu

28. október 2011 kl. 14:13

Skrautgripur á leið í frumtamningu

Árið 2008 birtist í Eiðfaxa grein um þrílitt kúfskjótt folald sem fæðst hafði norður í Möðrufelli í Eyjafirði.

Freyja Imsland, doktorsnemi í erfðafræði, og Páll Imsland stunda litaathuganir saman. Þau töldu eina af líklegum ástæðum fyrir sérkennlegu litafari vera vegna samruna tveggja einstaklinga á fyrstu stigum fósturþroskans.

„Það gæti hafa gerst hér, að þessi skjótti „lit-tvistur“ hafi verið vísir að rauðskjóttu og brúnskjóttu fóstri sem runnu saman í eitt. Reyndar þurfa þurfa þau ekki bæði að hafa verið skjótt, nóg er að annað þeirra hafi verið það. Þetta er þó engan veginn víst. Kannski er önnur skýring til á þessu, en svona skjótt hross á sem sagt ekki að vera til samkvæmt almennum erfðareglum. [...] Vonandi verður þetta vel geymdur gripur og ekki seldur á flakk eða til útlanda, heldur varðveittur hér heima til þess að hægt sé að fylgja eftir litaþróun hans og jafnvel reyna undaneldi.“ (Eiðfaxi, 3. tbl. 2008, bls. 55) 

Eftir fyrirspurn frá lesanda hafði Eiðfaxi samband við Matthías Eiðsson, einn eiganda folans, sem nú er á fjórða vetri ber frumlegt nafn með rentu – Litningur. Hann er ógeltur og fer í frumtamningu á næstu mánuðum.
 
Fáir líkjast honum
 
Matthías gaf Hryllingsfélaginu hestinn, en það er fjörugur félagsskapur stofnaður í kringum eignarhald á föður Litnings, Hryllingi Illingssyni frá Vallanesi. Hryllingsfélagið heldur úti stórskemmtilega heimasíðu, þar sem hægt er að rekja sögu Litnings, lesa af líflegum mannfögnuðum og drekka í sig kveðskap um hross og gleðskap. 
 
Hér er til að mynda ein, saminn af Matthíasi sjálfum um folann litprúða:
 
Litningur er ljúfur klár
léttur er að vonum.
Glæsilegur fótafrár
fáir líkjast honum.
 
Þar má einnig rekja ástæður þess að töltheimsmeistarinn Jóhann Skúlason á helming í folanum, en Matthías hafði lofaði að lána meri undir Hrylling í ferð félagsins til Danmörku. „Sumum kann að þykja þetta skrýtið en Jóhann Skúlason sagði Matthíasi í Möðrufelli að hann vildi fá skrautlega skjótt og hvað gerðist hann fékk folald sem var bæði rauðskjótt og brúnskjótt.“ 
 
Jón Hermannsson á Högnastöðum í Hrunamannahreppi sem er einn af Hryllingsfélögunum orti um Litning og litasamsetningu hans:
 
Glæsilegur gríðarhár
á grófum vegi brokkar.
Gulur rauður grænn og blár
er graðhesturinn okkar. 
 
Vonir bundnar við folann
 
Litningur hefur á uppvextinum fengið nokkra athygli og var m.a. hafður til sýnis í Húsdýragarðinum sl. vetur enda á litur hans ekki að eiga sér hliðstæðu í hestalitaflórunni.
 
„Litningur er nú stór og myndarlegur hestur, hann hefur verið notaður í fáeinar hryssur. Enn sem komið er hefur hann þó ekki gefið þrískjótt,“ sagði Matthías í samtali við Eiðfaxa. Hann býst við að frumtemja folann sjálfur í vetur og ber að vonum nokkrar væntingar til hans. „Hann er velættaður, föðurnum var ekki sinnt nægjanlega mikið til að hann sýndi allt sem í honum bjó og móðirinn er fyrstu verðlauna hryssa.“
 
Það verður óneitanlega spennandi að fylgjast áfram með uppvexti Litnings frá Möðrufelli en aðdáendum er bent á heimasíðu Hryllingsfélagsins.
 
Þess má einnig geta að eigendur afkvæma föður Litnings eru ákaflega hugmyndaríkir þegar kemur að nafnavali. Því meðal afkvæma Hryllings frá Vallanesi eru:
 
Skalla-Gríma, Spilling og Ölúð 
Skuggsjá, Ruslana, Dulúð
Hrollur, Hrellir, Snillingur
Hrollvekja, Forljótur, Tryllingur.
 
Enn um stökur
 
Það er mikið ort og sungið í Hryllingsfélaginu og eru t.d. alltaf sungnar nokkrar stökur - og þarf víst ekki öl til. Jóhannes á Gunnarsstöðum sagði:
 
Hryllingur mun tipla á tám
og talsverð verður leigan
þó að nafnið dragi dám
af delunum sem eiga´ann.
 
Árni  „fjórðungur“ Jónsson frá Fremstafelli auglýsti fund hjá Gunna á Grund svona:
 
Oft um Hryllings aðalfund
aukast vill sá kvittur
að þá villist inn að Grund
allar fyllibyttur.
 
Margt fleira væri hægt að segja frá þessum fjölskrúðuga félagsskap sem heldur samkomur nokkrum sinnum á ári og þá hittist fólk hvaðanæva af landinu til þess eins að gleðjast.