mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skráning á Kvennatölt í fullum gangi

7. apríl 2014 kl. 22:46

Kvennatölt Spretts

Til mikils að vinna

Skráning á Kvennatölt Spretts sem fram fer nk.laugardag, 12. apríl, er nú í fullum gangi á www.sportfengur.com. Það stefnir í stórskemmtilegt mót í glæsilegri umgjörð nýju Sprettshallarinnar á Kjóavöllum. Keppt er í fjórum flokkum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Í byrjendaflokki er sýnt hægt tölt og tölt á frjálsri ferð, ekkert snúið við á milli. Í minna vanar, meira vanar og opnum flokki er riðið hefðbundið T3 prógramm, hægt tölt, snúið við, hraðabreytingar og svo greitt tölt. Skráningargjald er kr. 4.500 á hest og má skrá fleiri en einn hest til leiks, en komi knapi fleiri en einum hesti í úrslit skal hann velja einn hest til úrslita. Aldurstakmark er 18 ár (miðað við ungmennaflokkinn) og skráningu lýkur á miðnætti þriðjudaginn 8. apríl nk. 
ATH. að byrjendaflokkurinn heitir “Annað” í skráningarkerfinu hjá Sportfeng.

 

Verðlaunin í ár eru sérlega glæsileg og ekki síst fyrir glæsilegasta parið sem verður valið í öllum flokkum. Allir knapar og hestar í forkeppni koma til greina og mun sérstök dómnefnd velja pörin. Þar verður litið til snyrtimennsku, prúðmannlegrar reiðmennsku, klæðnaðar, heildarmyndar og samspils manns og hests. Verðlaunin fyrir glæsilegustu pörin eru eftirfarandi:

Í Opnum flokki: Flug fyrir tvo með WOW Air til London eða Kaupmannahafnar - www.wowair.is
Í Meira vanar: Valkyrjuferð með hestaferðum í Kálfholti - www.kalfholt.is
Í Minna vanar: Prinsessuferð með Hestakránni – www.hestakrain.is

Í Byrjendaflokki: Hestaferð með Íshestum – www.ishestar.is

 

Verðlaunin fyrir úrslitaknapana eru ekki síðri, farandgripir frá Mustad og eignargripir frá Silkiprent sem er aðalstyrktaraðili mótsins ásamt Lýsi.  Þá fá sigurvegarar í hverjum flokki glæsilega úlpu frá Cintamani og glaðning frá Líflandi og aðrir verðlaunahafar fá vörur frá Jóni Söðla, Hellu ístöðum, Intersport, snyrtivörur og margt fl.

 

Lagt er upp úr góðri stemmingu og skemmtun þar sem allir njóta sín, jafnt byrjendur sem keppniskonur í fremstu röð. Hvetjum konur til að taka þátt í þessu skemmtilega móti og minnum á Facebook viðburðinn Kvennatölt Spretts, en allir þeir sem melda sig þar inn fara í pott og geta unnið tvo miða á Stóðhestaveisluna í Fákaseli þá um kvöldið.