mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skoðanaskipti í fundarherferð Landsmótsnefndar

7. september 2011 kl. 14:56

Skoðanaskipti í fundarherferð Landsmótsnefndar

Þessa daganna ferðast Landsmótsnefnd hringinn í kringum landið og kynnir hestamönnum skýrslu sína um Landsmót sem nefndin skilaði af sér 18. mars sl. í fundarherferð. Nefndin var skipuð af LH og BÍ í haust til að endurskoða umgjörð Landsmóts. Fundirnir nú eru haldnir með það að markmiði að ræða efni skýrslunnar, fara yfir framtíðarhorfur Landsmóts, svara fyrirspurnum fundarmanna og heyra álit manna á Landsmóti. Nú þegar hafa fjórir fundir farið fram, á Höfn í Hornafirði, á Egilsstöðum, Akureyri og í gærkvöldi var nefndin stödd á Hvanneyri. Bærilegur rómur hefur verið gerður að fundunum að sögn Haraldar Þórarinssonar, formanns LH, sem slegist hefur með í för nefndarinnar.

 „Fámennt en góðmennt hefur verið á fundunum, um tíu manns hafa mætt á hvern fund en þar höfum við heyrt skoðanir manna á hvað þeim finnst um Landsmótin og hvað má breyta . Sumir hafa komið vel undirbúnir, skapast hafa málefnalegar umræður þar sem menn eru tilbúnir að ræða og velta upp hugmyndum um hvernig gera má viðburðinn sem sterkastann í framtíðinni,“ segir Haraldur en almennt séu þeir gestir sem mætt hafi verið sammála um að standa vörð um Landsmót í því formi sem það er nú þegar. Menn vilji stytta mótið en ekki kljúfa formið á neinn hátt.

Eitt helsta hitamál fundanna hefur verið tillaga nefndarinnar um að halda Landsmótið tvisvar sinnum á Suðurlandi á móti hverju einu skipti á Norðurlandi. „Sitt sýnist auðvitað hverjum um það en tillagan hefur yfirleitt fengið góðar undirtektir. Gestir á Höfn og á Hvanneyri voru jákvæðir á meðan Egilsstaðamenn höfðu efasemdir. Þeir sem mættu á fundinn á Akureyri voru tilbúnir að ræða þetta málefnalega. Þann 13. september verðum við á Blönduósi þar sem Húnvetningar og Skagfirðingar munu vonandi mæta og segja skoðanir sínar,“ segir Haraldur.

Þá hafa umræður um færslu Landsmótsins fram um 1-2 vikur einnig verið í umræðunni en í skýrslunni eru færð rök fyrir því að skipuleggjendur Landsmóta skoði þá færslu af fullri alvöru. „Gestir fundanna hafa einnig verið tilbúnir að skoða það.  Færslan frá háannatíma í ferðaþjónustu gæti orðið til þess að fyrirtæki í ferðaþjónustu yrðu viljugri til að styrkja og markaðssetja mótið. En á sama hátt hafa menn áhyggjur af því að færslan hefði neikvæð áhrif varðandi komu erlendra gesta vegna t.d. vegna lengd skólaársins erlendis og annað slíkt. Auðvitað skiptir miklu máli að erlendir gestir fjölmenni á Landsmót og því þarf að skoða allar hliðar málsins,“ segir Haraldur.

Önnur athygliverð málefni hafa verið rædd s.s. hvernig hægt sé að stytta mótið, hvort rétt væri að fækka hrossum og breyta formi kynbótasýninga. „Á Hvanneyri í gær var þeirri hugmynd t.d. slegið fram að hugsanlega mætti forvinna, s.s. undanrásir og fordómar kynbótahrossa, fara fram á tveimur völlum í einu,“ segir Haraldur. Þá eru einnig skiptar skoðanir um hvernig fækka megi hrossum á Landsmótinu til að stytta mótið. „Sumir eru meðmæltir því að hestamannafélög sem mega senda tíu hesta eða fleiri hafi ekkert með það að gera. Sumir vilja að öll félögin geti sent einn hest í hverri grein og síðan séu aðrir valdir eftir öðrum reglum. Sumir vilja setja einkunnarlágmörk. Félögin geta í raun alltaf gert það og ég efast um að það sé í verkahring LH að gera slíkt. Hins vegar gæti LH breytt reiknireglunni bak við fjölda hrossa sem félögin senda ef niðurstaðan yrði svo,“ segir Haraldur.

Næsti fundur Landsliðsnefndar fer fram í Hvoli á Hvolsvelli á morgun kl. 20. Föstudagskvöldið 9. september verður nefndin svo í Reiðhöllinni í Víðidal kl. 18. Nefndin lýkur svo yfirferð sinni um landið á Blönduósi 13. september og er ekki úr vegi að hvetja hestamenn  að fjölmenna, og láta í ljós skoðanir sínar á framtíðarhorfum hinanr „óviðjafnanlegu hátíðarsamkomu hestamanna“ eins og segir í skýrslu Landsliðsnefndar en hana má nálgast í fullri lengd hér.