þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipt um knapa í miðri á

16. janúar 2013 kl. 11:38

Óskar frá Blesastöðum 1a fjögra vetra á LM2008. Knapi Nils-Christian Larsen

Óskar frá Blesastöðum 1a kominn í hóp úrvalsgæðinga í hesthúsi Nils-Christian Larsen í Noregi.

Það kom nokkuð á óvart þegar það barst út að Óskar frá Blesastöðum 1a væri farinn úr landi og kominn í hendur nýs þjálfara. Artemisia Bertus tók við þjálfun hestsins þegar núverandi eigendur, hrossabúið Gestüt Sunnaholt í Þýskalandi sem er í eigu norskra hjóna, keyptu hestinn. Artemisa er í samstarfi við búið og er "þeirra maður" á Íslandi ef svo má að orði komst. Hún keppti á Óskari á síðastliðnu ári með góðum árangri, náði toppi í Meistaradeildinni og var í úrslitum í tölti á Landsmóti og Íslandsmóti. En svona er keppnisbransinn, sá sem ekki á sinn keppnishest sjálfur getur ekki tekið því sem gefnu að hann sitji hann á morgun.

Það er Norðmaðurinn Nils-Christian Larsen, sem nú er kominn með Óskar undir hnakk. Hann er ekki ókunnugur hestinum, því hann sat hann í ræktunarbússýningu Blestastaða á LM2008. Í samtali við Isibless.is lofar Nils-Christian hestinn í hástert.

Hann segir meðal annars: „Ég var búin að gleyma hversu góður hann er, þetta er draumahestur að svo mörgu leyti, töltupplagið er svo magnað og langt frá því að vera eðlilegt. Hann spólar af stað í miklum burði á tölti óumbeðinn, það þarf ekkert að pumpa eða kreista, hann er bara svona og það finnst mér vera gríðarlega mikill kostur.  Þar að auki er geðslagið frábært og liturinn meiriháttar, þetta er draumahestur.“

Og nú er bara að sjá hvernig þeim félögum reiðir af á keppnistímabilinu sem er að ganga í hönd og hvort Óskar verður fyrir valinu þegar kemur að HM2013. Það er þó alls ekki víst vegna þess að Nils hefur úr mörgum góðum keppnishestum að velja, þar á meðal Mola frá Skriðu og Sædyn frá Múla.