mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skilur ekki hvernig stjórnin getur réttlætt ákvörðunina

20. desember 2011 kl. 14:44

Skilur ekki hvernig stjórnin getur réttlætt ákvörðunina

„Við erum eitt spurningamerki. Ég var með það á tæru að við fengjum að halda annað hvort mótið. Fyrir mér lítur þetta þannig út að stjórn LH og Landsmóts sé að koma upp einhverju kerfi sem er þvert ofan í samþykktir bæði formannafunda og landsþinga þess efnis að mótstöðum eigi að dreyfa. Ég skil ekki hvernig stjórnin getur réttlæt þessa ákvörðun. Því finnst okkur við vera beitt órétti,“ segir Valur Ásmundsson formaður hestamannafélagsins Funa, sem sótti hart að því að fá að halda Landsmót í Eyjafirði árið 2014 eða 2016.

Hann segir það af og frá að Eyfirðingar hafi lakara bakland en Skagfirðingar. „Við höfum hins vegar ekki þá hefð sem Skagfirðingarnir hafa fyrir landsmótshaldi. Því þurfum við auðvitað meira svigrúm en aðrir sem hafa verið með áskrift af landsmóti. Umsóknin okkar var góð og gild og uppfyllti allt sem beðið var um. Stjórn LH og Landsmóts átti svo að velja stað út frá umsóknum og engu öðru. Krónur og aura átti að ræða þegar gengið væri til samninga. Ef stjórnin hefði komið með yfirlýsingu um að gengið yrði að samningaborðinu við okkur þá hefðum við fyrst getað farið til okkar stuðningsaðila. Bæði sveitastjórnin í heild og félagasamtök í Eyjafirði höfðu áður lýst einhuga vilja til að koma að Landsmóti með beinum hætti,“ segir Valur og álítur svo að búið sé að slá Melgerðismela út af borðinu fyrir fullt og allt. „Það verður ekki landsmót á Melgerðismelum nema til komi veruleg viðhorfsbreyting eða hreinlega ný stjórn LH.“

Valur útilokar þó ekki að Funi muni sækja um Landsmótin árið 2018 eða 2020. „Hingað til höfum við ekki sótt um að halda Landsmót nema okkur hafi þótt það raunhæft, til dæmis höfum við aldrei sótt um Landsmót þegar það er ný búið að vera í Skagafirði. Nú er hins vegar verið að gefa einhvern breyttan tón. Það getur greinilega margt breyst. Stjórn Landssambandsins vinnur ekki eftir þeirri hugmyndafræði sem þar á að vera við lýði og það er vond tilfinning. Ég vil sjá hana taka nýja, lýðræðislega stefnu sem unnið er eftir. Auðvitað viljum við taka þetta skref fyrir skref og það í samstarfi við Landssambandið.“

Boðað hefur verið stjórnarfundar hjá Funa í kvöld þar sem tekin verður ákvörðun um næstu skref.

 

Þessu tengt: