miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skiljanlegt sport ?

Óðinn Örn Jóhannsson
12. mars 2018 kl. 09:00

Unghross í gerði.

Áhuginn á að horfa er að mestu þannig að fólk kemur og horfir á „sín“ hross.

Ég man það vel þegar ég heyrði fyrst í Sigurbirni Árna Arngrímssyni. Hver er það, hugsa eflaust margir núna en hann er sá maður sem hefur vakið áhuga minn á að horfa á frjálsar íþróttir sem mest. Hann færði í mínum huga lýsingar á íþróttaviðburðum á annan stall. Þetta gerði hann með því að upplýsa mig sem áhorfanda um hvað væri að gerast, hver fyrri árangur þess sem var á skjánum væri og svo þegar sem dæmi hlaupið hófst lýsti hann því sem fram fór og hvaða „taktík“ keppendur væru að beita. Þetta fékk mig til að sitja límdur við skjáinn yfir keppnisgreinum sem ég hafði áður ekki haft gaman af. Með því upplýsingaflæði sem frá Sigurbirni kom fékk ég meiri innsýn inn í hvað bjó að baki, með því skildi ég betur og hafði meira gaman af.

Ég skrifa um þetta hér því að í minni fjölskyldu er ég veikastur af hrossabakteríunni og yngri kynslóðin á heimilinu hefur oft þurft að fara með mér á mót. Mótin, eða þar að segja framsetning þeirra, hafa flest hver ekki fengið aðra fjölskyldumeðlimi til að verða jafn spennta og ég er yfir þessum viðburðum. Þó er ein mótaröð sem auðveldast er að fá fjölskylduna með á en það eru skeiðleikar Skeiðfélagsins. Þetta er vegna þess að skeiðið er auðskiljanlegt þar sem sá sem kemur fyrstur í mark er bestur og fyrir minna vana áhorfendur þá auðveldar það áhorf og eykur spennu þegar bestu hrossunum er raðað eftir tímum í seinni umferð. Skeiðfélagið hefur líka notið þess að Gunnar Arnarsson hefur í seinni tíð séð um lýsingar en líkt og fyrrnefndur Sigurbjörn þá fylgja með upplýsingar sem auka innsýn þeirra sem horfa inn í heim skeiðkappreiðanna.

Skeiðfélagið á þakkir skildar fyrir sitt framtak en þó var það þannig á síðustu Heimsleikum og á nýliðnu Íslandmóti að einna mest spenna var í kappreiðum mótanna af öllum keppnisgreinum. En með bættri framkvæmd og auknum áhuga á skeiði hefur gæðum og fjölda skeiðhrossa farið fram. Þetta eykur enn á spennuna þegar margir geta barist um sigurinn.

Fyrir okkur sem höngum yfir mótum frá upphafi til enda er eitt augljóst. Áhuginn á að horfa er að mestu þannig að fólk kemur og horfir á „sín“ hross. Þar að segja hrossin sem tengjast þeim á einhvern hátt og svo er farið. Þannig geta þeir sem þekkja til eigenda/aðstandenda hrossa séð á áhorfandahópnum hvaða hross eru væntanleg í braut. Þetta er mögulega full sterkt til orða tekið en líklegt er að með því að lýsa meira því sem fram er að fara á hringvellinum væri hægt að auka spennuna. Með því að gera viðburðinn meira spennandi þá eykst jú áhugi og áhorf.

Ein best heppnaða sýning sem ég hef farið á í seinni tíma var keppnin Meistari meistaranna. Þar var þeim sem höfðu unnið keppnisgreinarnar fimmgang, fjórgang, tölt og slakataumatölt í meistaradeildum síns svæðis boðið til keppni. Aðeins var keppt í þessum greinum og einungis riðin úrslit. Á tæpum tveimur tímum voru þar í boði fern úrslit. Með því að bjóða upp á fleiri stutta, spennandi viðburði með góðri kynningu vel mælskra þula er líklegt að hægt væri að glæða áhuga á keppni. Með þessu móti væri hægt að koma fólki á bragðið. Það eru eins og sagði vísar af þessu bæði í lýsingum Gunnars hjá skeiðfélaginu og í útsendingum sjónvarpsstöðvanna frá stærri viðburðum. Rétt væri að færa þessar lýsingar meira á mótin sjálf en með því móti væri að minnsta kosti hægt að gera úrslit stærri móta þannig að fólk hefði gaman af og mögulega dýpka skilning þeirra á sportinu í leiðinni.