sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skilasýning á Hólum

21. febrúar 2014 kl. 15:58

Nemendur á 2. ári verða með skilasýningum

Skilasýning hjá Háskólanum á Hólm á morgun en þá munu nemendur á 2. ári í BS-námi í reiðmennsku og reiðkennslu skila af sér trippum sem þeir hafa verið með í frumtamningu eða grunnþjálfun frá því strax eftir áramót.

Skilasýningar fara þannig fram að nemendur sýna hrossin í litlum hópum, fyrst og fremst í reið en einnig í öðrum verkefnum. Þetta fer fram inni í Þráarhöllinni, og kennarar segja um leið aðeins frá hrossunum og því sem nemendur eru að gera. Að innisýningunni lokinni halda nemendur út á reiðvöllinn og sýna hrossin einnig þar, eftir því sem við á.

Miðað er við að eigendur hrossanna mæti á sýningarnar og taki við hrossunum frá nemendum. Eigandi og tamningamaður geta þannig rætt um framvindu og stöðu. Auk þess að vera upplýsingagjöf til eigandans er slíkt samtal einnig til þess fallið að búa nemandann undir þann hluta starfsins sem tamningamaður - að eiga samskipti við viðskiptavini.

Í lok sýningar er svo gert ráð fyrir að eigendur hrossanna taki þau með sér af staðnum enda blasa önnur verkefni við nemendahópnum.

Þó þetta sé kynnt sem skilasýning til eigenda er rétt að geta þess að allir  eru hjartanlega velkomnir og allir sem áhuga hafa eru hvattir til að að koma hingað heim að Hólum og nýta þetta tækifæri til að kynna sér starfið í hestafræðideildinni, ekki síst tamningaferli Háskólans á Hólum.

Sýningin hefst kl. 13 og er áætlað að henni ljúki um kl. 16.