miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skilasýning Hólanema

19. desember 2013 kl. 05:10

Hanna Rún Ingibergsdóttir sýnir Gígju frá Enni

Grunnþjálfunarhross afhent eigendum

Að venju lauk starfi hestafræðideildar Hólaskóla fyrir jólin með því að nemendur á 2. ári sýndu og skiluðu tamningahrossunum sínum til eigenda, með sýningu í Þráarhöll laugardaginn 14. desember síðastliðinn.
Nemendur sýndu þar afrakstur 6 vikna grunnþjálfunar með tvö hross. Í grunnþjálfun er megináhersla lögð á að gera hrossin góð í beisli, þjálfa samspil hvetjandi og hamlandi ábendinga, sem og upphaf gangsetningu. Enn fremur uppbyggingu þreks, jafnvægis og vilja. Grunnþjálfun er framhald frumtamningar og trippin skulu því vera vel reiðfær utandyra og teymast vel með manni við upphaf áfangans. 

Á 2. ári í reiðmennsku og reiðkennslu er megináherslan lögð á tamningar og þjálfun og sér skólinn um að útvega hross í þau verkefni. Tamningarnámið skiptist í þrjú stig, þ.e. frumtamningu, grunnþjálfuna og svo þjálfun. Skólinn er í góðu samstarfi við hrossaræktendur, sem margir hverjir senda nokkur hross í hvert prógram á hverju ári. Öllum er þó frjálst að sækja um í tamningu og þjálfun, enda koma hrossin koma víðvegar af landinu. 

Öllum er velkomið að koma á skilasýningar, en á þeim sýna nemendur þá hesta sem þeir voru með umsjón yfir á tímabilinu, bæði inn í reiðhöll og út á hringvelli. Reiðkennarar skólans kynna jafnframt hrossin og lýsa því jafnóðum sem fram fer á meðan sýningunni stendur. Eftir sýninguna gefst eigendum hrossanna svo tækifæri á því að tala við sinn tamningamann og fá nánari upplýsingar um hrossið og gang mála.

Fullt er orðið í frumtamningu og þjálfun eftir áramót, en enn eru nokkur pláss laus í grunnþjálfun skv. heimasíðu Hólaskóla. Næsta skilasýning er þann 22. febrúar þar sem sýnd verða hross eftir frumtamningu og grunnþjálfun. Allir eru velkomnir heim að Hólum á skilasýningarnar en á þeim gefst gott tækifæri á því að átta sig á því hvernig tamningarferlinu er háttað við hestafræðideild Háskólans á Hólum.