laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skilaboð dómara -

24. ágúst 2010 kl. 23:39

Skilaboð dómara -

Þá er Suðurlandsmótinu 2010 lokið en þetta var eitt stærsta mót landsins, með þéttu prógrammi frá morgni til kvölds. Það var því mikið álag á dómara mótsins en sem betur fer voru þarna að störfum margir af reyndustu dómurum landsins.

En það er kannski líka þess hve reyndir dómarar voru þarna að störfum að ég ákvað að setjast niður og skrifa aðeins um mótið og dómgæsluna á mótinu. Eða öllu frekar hver skilaboð þessara reyndu dómara, voru til knapana á þessu móti. Ég reikna ekki með öðru en að þetta reynslufólk fagni gagnrýni á störf sín og taki henni ekki persónulega. Dómarar á þessu móti voru Hulda Geirsdóttir, Gylfi Geirsson, Þórir Örn Grétarsson, Kristinn Skúlason, Tómas Snorrason, Hallgrímur Birkisson og Sandra Poul
 
Undirritaður  sá líklega um 90% af þeim sýningum sem fram fóru um helgina enda hef ég gaman að því að fylgjast með svona mótum. Þarna voru fjölbreyttar sýningar og hestar af öllu tagi. En eftir að hafa horft á allar þessar sýningar þá verður að viðurkennast að ég á erfitt með að átta mig á hverju dómarar eru að leita eftir.  
 
En þau skilaboð sem ég náði voru eftirfarandi:
 
1. FÓTABURÐUR !! Það er mál númer 1,2 og 3. Ef hrossið er með fótaburð þá skiptir engu máli hve klárgengt eða hliðstætt hrossið er. Og því meiri fótaburður, því  betra, alveg sama hvort stirðleiki er til staðar, stillingum ábótavant eða útfærsla ómöguleg. Á þessu móti voru t.d. hross í töltúrslitum á hágengu brokktölti allan tímann. Og hágengt „kjag“ gefur 6.5 -7 á meðan að hreint tölt með góðum fótaburði gefur 6. Svo ef þið ætlið að ná árangri í íþróttakeppni þá skiptir aðal mál að það sé fótaburður. Hreinleiki, taktur og stillingar  ....  það er aukaatriði. Auðvitað voru þarna hestar sem voru bæði með mikinn fótaburð og hreinleika á gangtegundum,  en allt of margir klárgengir og hliðstæðir hestar voru að fá háar tölur. Sérstaklega átti þetta við í yngri flokkum og minna vönum.
 
2. HRAÐI og aftur HRAÐI. Það er mun vænlegra til árangurs að láta vaða á fullri ferð með upphlaupum og taktfeilum,   heldur en að ríða hnökralaust. Sýningar þar sem knapinn fór á kappreiðarstökki, gæðingabrokki og greiðu tölti með upphlaupum af og til,  fékk ætíð meira heldur en sýningar þar sem knapinn reið þetta af öryggi og sýndi flotta reiðmennsku. Ég skildi þetta ekki alveg vegna þess í leiðara er t.d. sagt að sýna eigi bæði brokk og stökk  „hægt til milliferðar“! Stór hluti hesta á Suðurlandsmótinu eiga  framtíð í bæði stökk og brokkkappreiðum, því ef þetta var milliferðarhraði sem þeir sýndu ... þá hefði ég nú gaman af því að sjá þá að fullri ferð!!. Eins og áður segir er lítið sem ekkert  refsað fyrir það að hlaupa upp og í úrslitum virðist vera nóg að ná einni langhlið á brokki eða stökki til að fá fulla einkunn.
 
3. REIÐMENNSKA. Það er algjört aukaatriði. Öll þessi námskeið og æfingar sem fólk er að mæta á er óþarfi og því vitleysa að vera að eyða peningum í það. Þó að fram komi í leiðara að dómari hafi leyfi til að verðlauna fyrir reiðmennsku með 0.5, þá er það eitthvað sem ekki er verið að nota. Sýning sem er laus við hnökra, átök og upphlaup ... er yfirleitt frekar stimpluð sem  „dauf“ og því algjör óþarfi að vera að leggja áherslu á það. Knapar sem hafa æft það að taka hest á stökk úr kyrrstöðu, knapar sem ríða/hjálpa hrossum í gegnum beygjur, knapar sem ríða stökk og brokk á réttum hraða ofl. ... fá ekki neina umbun fyrir það. Jú kannski eru dómarar stundum að nota þennan 0.5 fyrir reiðmennsku en það virðist helst eiga við þegar einhver fer svakalega hratt á greiðu tölti!(taktfeilar leyfðir!!!)  Allavega er það þannig að flott sýning á greiðu tölti fær 1-2 hærra en frábær sýning á stökki , feti eða brokki. 
 
4. HVAÐ HEITIR ÞÚ OG HVERN ÞEKKIR ÞÚ. Þegar ég var ungur var ég svakalega glaður þegar ég fékk VIP korti í Casablanca og Ingolfscafe. Þá fékk ég að fara fram fyrir röðina og fannst ég stór kall. Sérstaklega var nú gott að þekkja einhvern dyravörðinn því þá fór ég bara beint inn, sama hve seint ég kom. Það virðist vera að í hestamennskunni séu einnig svona VIP kort í gangi því sumir aðilar og aðilar þeim tengdir, fá alltaf að fara fram fyrir röðina, sama hvernig sýningin var.
 
Þetta eru svona þau helstu atriði sem að ég náði að innbyrða á Suðurlandsmótinu og ég verð að játa að þetta er allt annað en ég taldi að Íþróttakeppnin ætti að ganga út á. Margir þeirra sem komust í úrslit voru með sýningu í takt við að sem ég nefndi hér að ofan og því miður eru dæmi um hesta í efstu sætum í úrslitum sem voru aldrei hreinir á gangi og áttu hreinlega ónýtar sýningar!
 
Framundan er Íslandsmót í Hestaíþróttum og mér skilst að einhverjir af þeim dómurum sem að voru að dæma þetta mót, munu dæma Íslandsmótið. Ég ætla að vona að áherslur og einbeiting verði betri þar því dómgæslan á Suðurlandsmótinu var ekki góð. Auk þeirra atriða sem ég nefni hér að ofan þá voru dómarar gríðarlega miðlægir  og fólkið í brekkunni (bílunum) var farið að skemmta sér konunglega yfir því að sjá 6 og 6.5 birtast í úrslitum. Og það skemmtilega við það var að það virtist ekki skipta neinu einasta máli hvernig sýningin var. Það kom því ekki á óvart að yfirleitt voru einhverjir knapar jafnir að tölum og í eitt skipti voru 3 knapar jafnir í efsta sæti. Ég heyrði dómara segja það að þetta væru bara allt svo lík hross, en ég ætla nú að leyfa mér að mótmæla því. Sérstaklega vil ég leggja áherslu á það að allt of lítið var tekið á gölluðum sýningum og þeim refsað  eða að þeim sem náðu hnökralausum sýningum væru verðlaunuð fyrir það.
 
Þá á ég t.d. við:
Knapar sem tóku heilan hring til að komast á rétt stökk
Knapar sem komust ekki strax á brokk eða misstu hesta upp á brokki heilu langhliðarnar
Knapar sem höggva á móti hestinum þegar setið er á stökki
Knapar sem „sitja fetið“ en ríða það ekki
Niðurtaka og niðurhæging á skeiði.
Taktfeilar, klárgengni eða hliðstæða
 
Ég tel mikilvægt að knapar og dómarar hugsi aðeins út í þessi atriði. Dómarar verða að átta sig á því að dómgæsla þeirra sendir skilaboð til knapa. Þau skilaboð sem að ég nefndi hér að ofan eru í mínum huga ekki rétt og ekki í takt við íþróttakeppnina. En þessi skilaboð verða til þess að knapar haga sýningum sínum öðruvísi og íþróttasýningar í dag líkjast æ meira gæðingasýningum og er það miður. Og það eru íþróttadómarar sem eru valdir að þessari þróun því þeir verðlauna gallaðar en hraðar fótaburðarsýningar.
 
Ég velti fyrir mér hvort sumir dómarar séu að misskilja hlutverk sitt illilega. Stundum hefur maður á tilfinningunni að þeir upplifi sig sem stjörnur mótsins í stað þess að vera „þjónar“ knöpunum ef svo má segja. Þeir eiga að meta sýningu út frá leiðara og fylgja þeim forsendum í hvívetna. Ekki á að vera á persónulegu valdatrippi eða hlutlaus farþegi með hinum 4 dómurunum. Dómarar hafa völd og það fylgir því ábyrgð að vera með völd. Það er mikilvægt fyrir alla dómara að átta sig á þessari ábyrgð og taka starf sitt alvarlega. Ef að sýning er ekki að ganga upp, þá á að taka á því, sama hvaða hestur eða knapi er í braut og einnig á að verðlauna fyrir góða sýningu sama hver er í brautinni
 
Ég verð að viðurkenna að ég varð að hugsa mig um nokkrum sinnum áður en að ég setti þetta niður á blað. Það er vegna þess að ég hef áður velt fyrir mér störfum dómara og skrifað um það í Eiðfaxa. Eftir þau skrif  kom í ljós að margir dómarar eru hörundsárir einstaklingar og þola illa gagnrýni. Það að ég skildi gagnrýna störf þeirra, var tekið út á þeim sem mér er kærast um og er það miður. 
Ég óska dómurum í Íslandsmótinu til hamingju með að fá að dæma þetta stórmót og vona svo sannarlega að þar verði skilaboðin til knapa skýr og í samræmi við áherslur Íþróttakeppninnar.
 
Ólafur Árnason