föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeifudagurinn á Hvanneyri

26. apríl 2013 kl. 23:44

Skeifudagurinn á Hvanneyri

Mikill fjöldi fólks var saman komin á Miðfossum á sumardaginn fyrsta til að fylgjast með uppskeru vetrarins. Þar var að sjá afrakstur vetrarins í bæði tamningum og reiðmennsku.

Í reiðhöllinni sýndu nemendur m.a. frumtamningahross sýn með skemmtilegu sniði. Til að mynda voru sum hver löggð niður, riðið berbakt , staðið upp á o.fl. En þessar útfærslur sýna m.a. fram á að gott traust og samband hefur náðst á milli manns og hests sem eru forsendur fyrir góðri áframhaldandi vinnu með hrossið.

Alls voru þrettán nemendur af búvísinda- og búfræðideild sem völdu hrossaræktaráfanga inn í nám sitt sl. vetur. Það kom í hlut Huldu Jónsdóttur að vinna Eiðfaxabikarinn að þessu sinni ,en hann er veittur þeim nemanda sem skarar framúr í bóklegu námi í hrossarækt 2. Ásetuverðlaun Félags tamningamanna hlaut Sigurður Heiðar Birgisson og framfaraverðlaun Reynis hlaut Guðdís Jónsdóttir, en það eru verðlaun sem veitt eru þeim nemenda sem hefur sýnt hvað mesta elju og framfarir á tímabilinu.

Morgunblaðaskeifuna hlaut Harpa Birgisdóttir, en hún er veitt þeim nemanda sem hefur staðið sig best í verklegum prófum í hrossarækt 3.

Alls útskrifuðust tuttugu og tveir nemendur úr reiðmanninum í ár.  Það nám stendur yfir í tvö ár og er kennt víðsvegar um landið við góðar undirtektir. Að þessu sinni voru fyrsta árs nemendur endurmenntundardeildar Lbhí  á Akureyri, Miðfossum, Víðidal, Flúðum og Selfossi. Hópar á öðru ári voru á Hellu og í Víðidal og voru nemendur þeirra hópa útskrifaðir á skeifudaginn.

 

Úrslit Morgunblaðsskeifunar:

Morgunblaðs skeifan er veitt fyrir bestan samanlagðan árangur úr verklegum prófum í áfanganum (frumtamningar og knapamerki 3). Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti 1957 og var þetta í 56. Skipti sem verðlaunin eru veitt. Áður en knapamerkin komu til var skeifan veitt fyrir bestan árangur í frumtamningum.

1. Harpa Birgisdóttir 


2. Jónína Lilja Pálmadóttir 


3. Sigurlína Erla Magnúsdóttir 


4. Sigurður Heiðar Birgisson 


5. Guðdís Jónsdóttir 


 

Úrslit í keppni um Gunnarsbikarinn:

Gunnarsbikarinn er gefin af Bændasamtökum Íslands í minningu Gunnars Bjarnasonar fyrrum hrossaræktarráðunauts.

1. Jónína Lilja Pálmadóttir 


2. Sigurlína Erla Magnúsdóttir 


3. Sigurborg Hanna Sigurðardóttir 


4. Harpa Birgisdóttir 


5. Anna Heiða Baldursdóttir 


6. Anna Kristín Svansdóttir

 

Úrslit um Reynisbikarinn:

Reynisbikarinn var gefin af Reyni Aðalsteinssyni tamningameistara og eru það nemendur í Reiðmanninninum sem etja kappi um þann bikar.

1. Jón Óskar Jóhannesson 


2. Nanna Jónsdóttir 


3. Erna Óðinsdóttir 


4. Klara Ólafsdóttir

5. Soffía Sveinsdóttir

 

Heimir Gunnarsson var yfirreiðkennari á Hvanneyri síðastliðin vetur og er það frumraun hans sem kennari á Hvanneyri og því gaman að heyra hvað hann hefur um dvöl sína á Hvanneyri að segja.

Hvernig er veturinn á Hvanneyri búin að vera?

„Í haust tóku 15 nemendur verklegan áfanga þar sem kennd voru knapamerki 1 og 2. Stór hluti þeirra nemenda var á fyrsta ári í búfræði og fóru síðan í verknám út á býli nú á vorönn. Í verklega áfanganum sem kenndur er eftir áramót eru það nemendur á öðru ári í búfræði og í búvísindum sem frumtemja eitt hross og þjálfa annað. Þetta er ungt fólk með misjafnan bakgrunn í hestamennsku. Sumir eru aldir upp á hestbaki og aðrir hafa minna verið á hestbaki en hafa áhuga á að stunda útreiðar sér til gamans í framtíðinni og vilja þekkja til aðferða við að frumtemja og þjálfa hross þannig að þau geti nýst þeim sem best.  Veturinn hefur gengið að mestu áfallalaust fyrir sig og þrátt fyrir að flestir nemendurnir hafi verið að temja hest frá grunni í fyrsta sinn hefur afraksturinn verið með ágætum og engin slys orðið hvorki á mönnum né hestum.”

 

Má búast við einhverjum breytingum á náminu frá því sem það er í dag?

„Námið er í sífelldri endurskoðun og verður farið yfir það núna að skeifudegi loknum að meta kosti og galla og leggja mat á hvað sé hægt að gera betur til þess að námið nýtist nemendum sem best. Viðraðar hafa verið hugmyndir um að setja á laggirnar sérstakt tamninganám á framhaldsskólastigi í samstarfi við félag tamningamanna en sem komið er eru þær hugmyndir einungis á teikniborðinu.”

 

Hvernig var staðið að vali þeirra nemenda úr reiðmanninum sem kepptu á Skeifudeginum?

„Í lok hverrar annar fara nemendur reiðmannsins í stöðumat. Það eru síðan þeir nemendur sem best koma út úr þessu stöðumati á hverjum stað sem fá að spreyta sig í keppninni um Reynisbikarinn. Af fyrsta ári var í ár tveimur nemendum úr hverjum fyrsta árs hópi boðin þátttaka, en þremur úr hverjum annars árs hópi.”

Fleiri myndir af sigurvegurum og nemendum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri má finna á vef http://www.lbhi.is

 

birna.eidfaxi