mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeifudagur Grana haldin hátíðlegur

20. apríl 2012 kl. 10:34

Skeifudagur Grana haldin hátíðlegur

Hinn árlegi Skeifudagur Grana var haldin hátíðlegur við Landbúnaðarháskóla Íslands í gær, sumardaginn fyrsta.

 
Þessi dagur er hátíðisdagur hestamanna þar sem  nemar skólans sýna árangur vetrarins við tamningar og þjálfun. Reiðkennararnir Haukur Bjarnason og Randi Holaker á Skáney hafa séð um kennsluna í vetur. Að þessu sinni var það Skagfirðingurinn Svala Guðmundsdóttir sem sópaði að sér verðlaunum.  Fékk viðurkenningu Félags tamningamanna fyrir bestu ásetuna, Morgunblaðsskeifuna fyrir samanlagðan árangur í þjálfun og tamningum og Gunnarsbikarinn en hann er veittur þeim sem sigrar gangtegundakeppni nemenda og er í minningu Gunnars Bjarnasonar.
 
Eiðfaxabikarinn fyrir bestan árangur í bóklegum áfanga í hrossarækt hlaut Hrafnhildur Tíbrá Halldórsdóttir og Heiðrún Halldórsdóttir Framfarabikarinn sem veittur er í minningu Reynis Aðalsteinssonar fyrir bestu ástundun og framfarir í reiðmennsku og þjálfun á námstímanum.
 
Að þessu sinni útskrifuðust einnig um 60 nemar úr námskeiðsröðinni Reiðmanninum. Útskriftarhóparnir voru frá Sörlastöðum, Borgarnesi, Akureyri, Iðavöllum og Flúðum. Verklegir kennarar vetrarins á þessum stöðum voru Halldór Guðjónsson, Heimir Gunnarsson, Erlingur Ingvarsson, Reynir Örn Pálmason og Ísleifur Jónasson. Um bóklega kennslu sá Gunnar Reynisson.  Nemar í Reiðmanninum taka þátt í Reynisbikarnum sem byggir á gæðingafimi og gangtegundakeppni. Um þrír frá hverjum hópi taka þátt í undanúrslitum og loks riðið til úrslita á Skeifudegi. Að þessu sinni var það Eyrún Jónasdóttir frá Kálfholti II sem eftir mjög jafna og spennandi keppni bar sigur úr býtum.
 
Kristinn Bjarni Þorvaldsson frá Ásbirni Ólafssyni ehf og innflytjandi Kerckhaert kom færandi hendi og gaf Landbúnaðarháskólanum forlátan steðja, sem Ágúst Sigurðsson tók á móti og þakkaði vel fyrir.
 
Dagurinn tókst í alla staði vel, að er fram kemur í frétt frá Landbúnaðarháskólanum, og skein bros af andlitum nema og þó ekki síður áhorfenda sem margir hverjir höfðu haft heppnina með sér og unnið folatolla í happadrætti Hestamannafélagsins Grana.