miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeifudagur á Mið-Fossum

16. apríl 2010 kl. 09:11

Skeifudagur á Mið-Fossum

Á sumardaginn fyrsta, þann 22. apríl, verður haldinn hátíðlegur Skeifudagur Grana á Mið-Fossum. Grani er hestamannafélag nemenda við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Þennan dag sýna nemendur í hrossarækt við LbhÍ afrakstur vetrarstarfsins í reiðmennsku og frumtamningum. Morgunblaðsskeifan verður afhent þeim nemenda LbhÍ sem stendur sig best í reiðmennsku- og frumtamninganámi vetrarins. Keppt verður um Gunnarsbikarinn, sem gefinn er af Bændasamtökum Íslands í minningu Gunnars Bjarnasonar fyrrum hrossaræktarráðunauts og kennara á Hvanneyri. Kennari í vetur var tamningameistarinn Reynir Aðalsteinsson.

Bryddað verður upp á ýmsum skemmtilegum atriðum þennan dag. Fram mun koma sýningarsveit borgfiskra hestakvenna; Skessurnar, nemendur Reiðmannsins, sem er námskeiðaröð í hestamennsku á vegum LbhÍ, keppa um Reynisbikarinn, ásamt fleiri skemmtilegum atriðum.

Að lokum má geta þess að hestamannafélagið Grani mun halda happadrætti þar sem dregið verður um fjölda glæsilegra folatolla.

Dagurinn verður haldin í glæsilegri aðstöðu LbhÍ að Mið-Fossum í Borgarfirði og byrjar dagskráin klukkan 13:00.

Allir eru hjartanlega velkomnir :)

Kveðja Grani og LbhÍ.