föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeifnasprettur Litfara

21. maí 2010 kl. 11:05

Skeifnasprettur Litfara

Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar varðveitt ýmsa kosti í sínu búfé sem glatast hafa í mörgum öðrum löndum, svo sem tölt og skeið í hrossum, og teljum við okkur lánsöm og forsjál fyrir þær sækir. Þá hefur fjölbreytileiki í lit og lögun einnig viðhaldist í íslenskum húsdýrum, þrátt fyrir litla stofnstærð og tíða skepnufella af völdum tíðarfars og náttúruhamfara líkum þeim sem við eigum nú við að glíma. Því væri mikil synd ef okkur nútímahestamönnum tækist að glata niður eiginleikum sem fundist hafa í íslenskum hrossum síðasta árþúsundið.


Einn slíkur eiginleiki sem við erum full nærri því að glata er hinn litförótti litur íslenskra hrossa. Í tilraun til að stuðla að viðhaldi og auknu viðgengi litförótts litar hef ég, ásamt föður mínum Páli Imsland, unnið síðu með upplýsingum um litförótta litinn. Á henni má finna umfjöllun um þennan sérstaka lit, sögu hans, hvernig hann hegðar sér og af hverju,
ásamt tölfræðilegri úttekt á stöðu litarins í íslenska stofninum. Þá er á henni að finna lista með upplýsingum um þá litföróttu graðhesta og -fola sem til eru á Íslandi og verða til notkunar nú sumarið 2010. Viljum við endilega hvetja sem allra flesta til að halda hryssum sínum undir einhvern þessarra fola svo að dreifa megi litnum víða um land og auka á fjölda litföróttra hrossa.


Erlendir kaupendur sækja stíft í litförótt hross, sérstaklega þau sem eru öðrum betri, og fer of mikið af þeim sem koma í heiminn úr landi. Til að mynda eru báðir þeir fyrstu verðlauna litföróttu graðhestar sem komið hafa fram seldir úr landi. Það gefur skýr skilaboð um það að liturinn sé eftirsóknarverður og hagur sé að því að reyna að rækta meira af honum, og rækta fram afkastahross með þennan lit, svo hægt sé bæði að viðhalda honum innanlands og gera sér gróða og selja eitthvað af hrossum úr landi án þess að það sé til skaða.


Slóðin á síðu Litfara er:
http://litfari.123.is


Bestu kveðjur,
Freyja Imsland