fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeiðveisla í vændum

26. apríl 2015 kl. 13:13

Sprett úr spori.

Skeiðfélagið stendur fyrir 5 skeiðleikum í sumar.

Skeiðfélagið sendir frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Þegar sumardagurinn fyrsti er um garð genginn og líf kviknar í gróðri er aðeins að bíða hins síðasta vorboða – fyrstu skeiðleika Skeiðfélagsins og Baldvins og Þorvaldar! Eftir skeiðveislu síðasta tímabils var ekki við öðru að búast en bitist yrði um pláss á skeiðdegi Skeiðfélagins og Sigurbjörns Bárðarsonar sem haldinn verður 2. maí næstkomandi og sú varð raunin. Því má ganga að sem gefnu að knapar og hross komi undirbúin sem aldrei fyrr inn í komandi skeiðsumar. Enn er þó tækifæri fyrir þá sem ekki náðu að tryggja sér pláss á fullt námskeið að skafa sér þekkingarklípu úr reynslubanka Sigurbjörns á opnum fyrirlestri sem hefst kl. 09:00 þann 2. maí. (leita má sér frekari upplýsinga um efni hans í fyrri auglýsingu).

Þó tímarnir bjóði knappan kost stendur Hestavöruverslunin Baldvin og Þorvaldur enn sem áður þétt að baki Skeiðfélaginu að skeiðleikum 2015 og styrkja þau Guðmundur og Ragna um öll verðlaun sumarsins!

Ekki er úr vegi, með tilliti til þeirra sem vilja mæta með gamma sína vel brýnda til leiks að láta fylgja með dagskrá sumarsins.

Svona lítur skipulag skeiðleika sumarsins út:

Skeiðleikar 1 – fimmtudaginn 21. maí.
Skeiðleikar 2 – miðvikudaginn 3. júní.
Skeiðleikar 3 – miðvikudaginn 24. júní.
Skeiðleikar 4 – miðvikudaginn 15. júlí.
Skeiðleikar 5 – fimmtudaginn 20. ágúst.
(með fyrirvara um breytingar)