miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeiðpælingar -

5. maí 2010 kl. 10:44

Skeiðpælingar -

Ein af fjöðrunum í hatti íslenska hestsins er gangtegundin skeið. Hestamenn hafa yndi af því að horfa á viljugan, íslenskan gæðing sem sýnir allar gangtegundir frábærar og mikið "kick" að horfa á magnaðan skeiðsprett.

Nú, á vordögum eins og nú, eru menn að kortleggja sýningar á kynbótahrossum og þá er ekki úr vegi að líta á hvaða hross það eru sem hlotið hafa hæstu einkunn fyrir skeið, 10.0.

Þegar leitað er eftir þessu í gagnabankanum WorldFeng, þá koma upp 13 hross. Ellefu þeirra eru fædd á Íslandi, eitt í Svíþjóð og eitt í Þýskalandi. Þessi hross eru jafnan með himinháan hæfileikadóm eða um 8.60 og upp í 9.08.

Lítum á þennan lista:

Nafn og uppruni hross        Sköpulag    Hæfileikar    Aðaleinkunn
DE1997104468 Snúður Lipperthof    7.86      8.51        8.25
IS1960136310 Andvari Hreðavatni    7.7         8.43         8.07
IS1970165740 Náttfari Ytra-Dalsgerði    8     9.08     8.54
IS1988165825 Bokki Akureyri    7.95     8.61     8.28
IS1988176100 Svartur Unalæk    8.18     8.9     8.54
IS1989176189 Hjörvar Ketilsstöðum    7.8     8.81     8.3
IS1993188802 Númi Þóroddsstöðum    8.23     8.5     8.36
IS1994157005 Fálki Sauðárkróki    8.16     8.97     8.65
IS1996165490 Glampi Efri-Rauðalæk    7.83     8.34     8.14
IS1996187723 Sjóli Dalbæ    8.26     8.93     8.66
IS1996265491 Ísól Efri-Rauðalæk    8.01     8.63     8.39
IS1998287130 Hryðja Hvoli    8.25     8.92     8.65
SE1992104328 Askur Håkansgården    8.29     8.87     8.64

Ef við förum svo niður um hálfan, leitum eftir þeim sem hafa hlotið 9,5 fyrir skeið, þá fjölgar hrossunum heldur betur eða í alls 211 stk. Í þeim hópi eru nokkur íslensk fædd ung hross, sem gerðu það gott á síðasta landsmót. Þetta eru þau Glotti frá Sveinatungu, Tangó frá STrandarhöfði, Ómur frá Kvistum og hryssurnar Minning og Djörfung frá Ketilsstöðum. Þar að auki eru hross eins og Sefja frá Úlfljótsvatni og Sindri frá Vallanesi með 9,5 fyrir skeið og háan hæfileikadóm, sem og Ás frá Ármóti, Stáli frá Kjarri, Illingur frá Tóftum, Sóldögg frá Hvoli, Gígja frá Auðsholtshjáleigu, Blær frá Hesti og Aðall frá Nýjabæ. Svo einhver séu nefnd.

Við munum eftir þessum skörungum, þau gleðja augað hvort sem er í kynbótabrautinni eða á keppnisvellinum.

Höldum áfram að hrífast af skeiðinu, það er hollt fyrir andann.

Hér má sjá dómskvarðann í kynbótadómnum fyrir skeið:


9,5 – 10

-Öruggt og glæsilegt skeið, taktgott, skeiðferðin frábær.

9,0
-Öruggt og glæsilegt skeið, taktgott, góð skeiðferð.
-Kappreiðaskeið, ekki kröfur um glæsileik.

8,5
-Öruggt og afar fallegt skeið, taktgott, allgóð skeiðferð.
-Öruggt og snarpt skeið en ekki fallegt.
-Glæsilegt og ferðmikið skeið en ekki full sprettlengd, - nær þó 90 til 100 m.
-Glæsilegt og flugrúmt skeið, óverulegir taktgallar, full sprettlengd, nær 150 til 180 m.

8,0
-Öruggt og fallegt skeið, taktgott, skeiðferð í meðallagi.
-Öruggt og rúmt skeið en ekki fallegt.
-Fallegt og ferðmikið skeið en ekki langir sprettir, nær þó 70 – 80 m.
-Fallegt og mjög rúmt skeið en lítillega fjórtaktað á köflum.

7,5
-Öruggt og þokkalega fallegt skeið, taktgott en skortir á ferð.
-Öruggt, ekki fallegt skeið en fremur ferðgott.
-Fallegt og rúmt skeið en stuttir sprettir, - nær þó 40 til 60 m.
-Fallegt og rúmt skeið en fjórtaktað á köflum.

7,0
-Snerpu skeiðhrifsur en lítið skeiðöryggi.
-Skeið með allmiklum taktgöllum.
-Snerpu- og fegurðarlítið en öruggt skeið.

6,5 eða lægra
-Engin vekurð (5.0).
-Stuttir snerpulitlir sprettir.
-Snerpulaust skeið þótt hrossið haldi sprettinn út.
-Skeiðhrifsur.
-Skeið með verulegum taktgöllum; flandur, fjórtaktur eða víxl.