miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeiðgenið í Hátíðasalnum

1. október 2012 kl. 11:34

Vekringurinn og stóðhesturinn Þór frá Kalvsvik á heimsmetið í 250m skeið með „gömlu tímatökunni“, 19,86 sekúndur. Knapi Magnus Lindquist.

Dr. Leif Andersson, prófessor við Uppsalaháskóla, heldur fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands um fund skeiðgensins, sem hefur úrslitaáhrif á góðgang í hestum.

Þann 4. október næstkomandi mun dr. Leif Andersson, prófessor við Uppsalaháskóla, halda fyrirlestur um nýlegar rannsóknir sínar á erfðum gangs í hestum. Rannsóknahópur Anderssons við Uppsalaháskóla og Sænska landbúnaðarháskólann hefur ásamt samstarfsfólki fundið breytileika í einum erfðaþætti (geni) í hrossum sem hefur úrslitaáhrif á getu þeirra til góðgangs, sem er jafnframt veigamikill þáttur í árangri hrossa í kerrukappakstri á brokki og skeiði.

Íslenski hesturinn var lykillinn að því að þessi breytileiki fannst. Tilraunir með þennan erfðaþátt í músum hafa leitt í ljós nýja grunnþekkingu á þeim taugaboðleiðum sem stýra hreyfingum útlima. Rannsóknin markar tímamót í skilningi á taugaboðleiðum í mænu og hvernig þær stýra hreyfimynstrum hryggdýra. Rannsóknin var nýlega birt í hinu virta vísindariti Nature. Andersson mun einnig ræða erfðaþætti sem ráða stærð hanakambsins en þar kom íslenska landnámshænan við sögu.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 4. október og hefst stundvíslega kl. 15:00. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku. Öllum er heimill aðgangur. Heiti fyrirlestrarins á ensku er:  Pace Maker - a single base change reshapes horses’ neural circuits to add pacing to their repertoire,