sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skeiðgenið eykur veg klárhrossa

29. nóvember 2012 kl. 17:47

Hluti klárhrossa mun hækka í kynbótamati ef það verður reiknað upp á nýtt samkvæmt tillögu kynbótafræðinga. Á myndinni er Dugur frá Þúfu, knapi Sigurður Sigurðarson.

Kynbótamat fyrir klárhross hefur til þessa verið rangt reiknað í ljósi nýrra upplýsinga um skeiðgenið

Kynbótamat fyrir klárhross hefur til þessa verið rangt reiknað í ljósi þeirra  upplýsinga sem liggja fyrir með fundi skeiðgensins. Þetta kom fram í fyrirlestri Þorvaldar Árnasonar um hagnýta þýðingu þess í hrossaræktinni sem hann hélt á LbhÍ á Hvanneyri á þriðjudaginn.

Ágúst Sigurðsson, kynbótafræðingur og rektor LbhÍ á Hvanneyri, segir að kynbótafræðingar muni leggja það til í ljósi þessarar nýju uppgötvunar að kynbótamatið verði reiknað upp á nýtt. Nú sé ljós að ekki sé rétt að gefa klárhrossi lágmarkseinkunn fyrir skeið, þar sem það sé hugsanlega með skeiðgenið í sér og geti erft frá sér skeið.

„Það verður þá gert þannig að hross sem eru með 5,0 fyrir skeið verða reiknuð inn á nýjan hátt. Það er að segja, þau verða reiknuð inn með enga einkunn fyrir skeið, og í staðinn kemur: Upplýsingar um eiginleikann vantar! Þau munu þá fá kynbótaeinkunn fyrir skeið reiknaða út frá ætterni og erfðafylgni við aðra eiginleika, svo sem tölt.“

Ágúst segir alveg ljóst að einhver hluti klárhrossanna muni hækka í kynbótamati þegar og ef það verður reiknað upp á nýtt með þessum hætti. En einhver geti þó lækkað.

„Ég á von á því að kynbótamatið verði reiknað upp á nýtt fyrr en seinna. Það er í rauninni eðlilegt framhald í ljósi nýrra uppgötvana. Þetta eru þó bara fyrstu viðbrögð. Fundur skeiðgensins opnar einnig fleiri spennandi hagnýta möguleika í hrossaræktinni og það eru spennandi tímar framundan,“ segir Ágúst.

Hægt er að hlusta á fyrirlestur Þorvaldar Árnasonar HÉR.