sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skaparans meistara mynd

6. ágúst 2013 kl. 10:46

Sigurlína Kristinsdóttir er með glæsilegan bás á HM

Sigurlína Kristinsdóttir myndlistarkona er stödd á Heimsmeistaramótinu í Berlín.

Hestar hafa lengi verið eitt af aðalviðfangsefnum listamanna, enda hefur hesturinn verið talinn tákn um fegurð, frelsi og fágun í gegnum tíðina. Hesturinn hefur eitthvað við sig, sem skilur áhorfandann eftir fullan af auðmýkt og aðdáun, sem oft er ekki hægt að koma í orð.

Sigurlína Kristinsdóttir er hæfileikarík listakona sem vakið hefur athygli með stórglæsilegum hestamálverkum, teikningum og hönnun. Hún er fædd og uppalin á hrossaræktarbúinu Fellskoti í Biskupstungum og hennar helsta myndefni hefur því ekki verið langt undan í gegnum tíðina.


,,Ég hef verið að mála síðan ég var mjög ung, 12 ára byrjaði ég að nota olíuliti. Ég mála ekki einungis hesta en ég hef alltaf verið í kringum hross og þau hafa því verið mér sérstakt hugarefni. Þau eru náttúrulega æðislegt viðfangsefni, falleg og svo mikill hluti af Íslandi og er því svona sérstakt íslenskt þema sem gaman er að eiga við.”

 

Sigurlína er lærð listakona og árið 2006 útskrifaðist hún sem myndlistakennari frá Listaháskóla Íslands. Hún starfar nú sem myndlistakennari við Grunnskóla Bláskógarbyggðar í Reykholti og segist vinna við listina í hjáverkum.
,,Ég er alltaf með hross fyrir augunum, ég þarf ekki nema horfa út um gluggann og út á tún. Einnig tek ég mikið af ljósmyndum og finnst virkilega gaman að stúdera hestinn frá öllum hliðum og sjónarhornum, bæði nær og fjær. Einnig hef ég töluvert verið að mála eftir pöntunum, fólki finnst svo gaman að fá hestinn sinn málaðan.”

Fyrir áhugasama, þá er Sigurlína með sölubás í Íslandstjaldinu á sölusvæði Heimsmeistaramótsins og hefur þar margar glæsilegar myndir til sýnis.

 

hrafnhildurhelga@beisli.net