fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skagfirsk sveifla á Vindheimamelum

9. júní 2011 kl. 11:03

Skagfirsk sveifla á Vindheimamelum

Nú styttist óðum í 19. Landsmót hestamanna sem haldið verður að Vindheimamelum í Skagafirði dagana 26. júní – 3. júlí. Mótshaldarar eru í óðaönn að hnýta síðustu hnútana í undirbúningi mótsins og hafa nú gefið út skemmtidagskrá þess, sem er fjölbreytt enda mun fólk á öllum aldri sækja mótið.

Sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson verður í stóru hlutverki, enda mótið haldið í skjóli fjalla á heimaslóðum skagfirsku sveiflunnar. Álftagerðisbræður og karlakórinn Heimir munu einnig stíga á stokk og syngja af sinni alkunnu snilld.

Í barnagarðinum munu þau Magni Ásgeirsson og Sigga Beinteins stýra söngvakeppni barnanna og mun sigurvegarinn flytja lag sitt á kvöldvökunni á laugardagskvöldinu, þar sem Magni mun einmitt stýra brekkusöngnum eins og herforingi.

Á laugardagskvöldinu mun hljómsveitin Von stíga á stokk ásamt þeim Magna, Vigni Snæ, Jogvani og Siggu Beinteins og halda uppi fjörinu á tjalddansleiknum.