mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skagfirðingar sameinast

30. mars 2015 kl. 11:19

Samkvæmt tillögum sameiningarnefndarinnar verður Gullhyl ehf. slitið eftir Landsmót 2016 um leið og Vindheimamelar verða aflagðir sem mótssvæði.

Stikkorð

Gullhylur

Líklegt er að hestamannafélögin Léttfeti, Stígandi og Svaði verði að einu.

Tillaga um sameiningu hestamannafélagana Léttfeta, Stíganda og Svaða  verður lögð fyrir næsta aðalfund félagana. Sameining leiðir að sér meiri slagkraft og skilvirkari starfsemi hjá hestamönnum í Skagafirði að mati sameiningarnefndar sem unnið hefur saman undanfarið ár. Verkefni nefndarinnar var að leggja mat á hvort og þá hvernig sameining hestamannafélaganna í Skagafirði gæti orðið hestamennsku í Skagafirði til framdráttar, þegar til lengri tíma er litið. "Við komum fram innan héraðs sem utan sem ein rödd, við bönkum einu sinni á dyrnar hjá þeim sem við leitum liðsinnis hjá, í stað þess að banka þrisvar," segir m.a. í skýrslu nefndarinnar.

Nefndina skipuðu þeir Guðmundur Sveinsson  og Sigríður Gunnarsdóttir frá Léttfeta, Agnar H. Gunnarsson og Ingimar Ingimarsson frá Stíganda og Guðjón Björgvinsson og Haraldur Þ. Jóhannsson frá Svaða. Niðurstaða nefndarinnar er sú að sameining þykir vænlegur kostur.

 "Segja má fyrirkomulagið eins og það er í dag, þ.e.a.s. þrjú hestamannafélög, sé barn sín tíma, því frá fyrri hluta síðustu aldar, þegar Léttfeti og Stígandi voru stofnuð, hefur margt breyst í héraði. Samgöngur hafa stórbatnað og flutningur hesta á kerrum þykir sjálfsagt mál í dag, þannig að veglengdir standa ekki í vegi þess að fara enda á milli innan héraðs. Ef menn hafa í huga það sem fram kom hér á undan um hlutverk og skyldur hestamannafélaganna, þá er augljóst að samstarfsfletirnir eru nú þegar margir og starfið öflugast þar sem félögin leggjast saman á árarnar. Skylduverkefni s.s. firmakeppni og félagsmót eru haldin af veikum mætti, þátttaka ekki mikil og áhorf í lágmarki. Það hefur verið vinsælt í seinni tíð að tala um samlegðaráhrif, þau eiga örugglega við í þessu sambandi, ef til sameiningar kemur," segir í skýrslunni.

Sameiningarnefndin leggur jafnfram til að byggja upp núverandi félagssvæði Léttfeta og að það verði aðalfélagssvæði nýs félags. Stjórninni er falið að stinga upp á 3-4 nöfnum á nýtt félag sem síðar verður kosið um, ef af sameiningu verður.

Gullhyl ehf. slitið eftir Landsmót

Þá er lagt til að stjórn Gullhyls ehf., sem er í eigu hestamannafélagana þriggja, sitji óbreytt fram yfir næsta Landsmót, en síðan verði unnin bráður bugur á því að koma eignum félagsins í verð og slíta félaginu um leið og Vindheimamelar verði aflagðir sem mótssvæði.

"Mikið var rætt um möguleika þess að reisa hesthús við Reiðhöllina og mætti Viggó Jónsson, formaður Flugu hf, á einn fund og kynnti grunnhugmyndir, sem hann og Sigurjón Rúnar Rafnsson eru að vinna að varðandi slíka byggingu. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að hesthús risi og telja það muni styrkja starfsemi Reiðhallarinnar og auðvelda félagsmönnum nýtingu hennar, sérstaklega þeim sem lengra eiga að sækja. Auk þess yrði það til mikilla bóta fyrir allt sýningar- og mótahald. Ef af sameiningu verður, þarf  stjórn nýs félags að fullkanna fjárhagslega möguleika þess að reisa þarna hesthús og fá þá til liðs við sig aðra þá, sem mögulega hefðu hagsmuna að gæta í málinu. Ef af yrði er talið skynsamlegt að um sér félag yrði að ræða, þ.e.a.s. húsið yrði ekki eign Flugu hf, þó svo að Fluga gæti átt í því einhvern hlut. Líklega yrði um sérstætt hús að ræða, þ.e. húsið yrði ekki byggt upp að Reiðhöllinni," segir jafnframt í skýrslunni sem nálgast má hér.