þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skagfirðingar bjóða gesti velkomna

25. september 2019 kl. 09:00

Laufskálaréttir njóta vinsælda langt út fyrir landsteinanna

Skagfirðingar hafa löngum verið rómaðir fyrir gestrisni og gleði og ekkert hefur breyst í þeim málum.

 

 Næstkomandi helgi fer fram Laufskálaréttarhelgin, sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi sem ein af hátíðarhelgum hestamanna að hausti.

Blaðamaður Eiðfaxa verður á staðnum og mun fanga stemminguna í kringum réttirnar á Instagram auk þess að taka mannlífsmyndir í réttunum. En hægt er að finna Eiðfaxa á Instagram undir nafninu eidfaxi_Iceland.

Fimmtudaginn 26.september klukkan 19:00 mun Hrossaræktarsamband Skagfirðinga og Félag Hrossabænda standa fyrir sölusýningu í Svaðastaðahöllinni. En allt um þá sýningu má lesa með því að smella hér. 

Laufskálaréttarsýningin fer fram í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki föstudagskvöldið 27.september og hefst hún klukkan 20:30. Miðinn kostar 3.500 krónur og er hægt að næla sér í miða í forsölu á N1 á Sauðárkróki. Í auglýsingu frá sýningunni segir að um Skagfirska skemmtun sé að ræða þar sem hestar, gleði, söngur og glaðlyndir gestir verða í fyrirrúmi.

Eftir sýninguna trúbba þeir Frikki og Hössi á Hótel Varmahlíð en reikna má með að fólk geti hitað vel upp fyrir réttirnar þar og sungið frá sér röddina. Þá er ball með sveiflukónginum Geirmundi Valtýs á skemmtistaðnum Mælifelli á föstudagskvöldinu en hann treður upp á Hótel Varmahlíð á laugardagskvöldinu.

Laugardaginn 28.september eru réttirnar en stóðið er rekið úr Kolbeinsdal og í Laufskálarétt upp úr 11:30 en réttarstörf hefjast klukkan 13:00. Mikil upplifun er að sjá stóðið koma stökkvandi úr Kolbeinsdal eftir sumarlanga dvöl í fjallasölum.

Á laugardagskvöldinu er svo ristastórt reiðhallarball í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki þar sem fram kemur Stuðlabandið ásamt Stefáni Hilmarssyni. Sama kvöld er ball í Höfðaborg á Hofsósi þar sem Siglfirðingarnir Stulli og Danni skemmta fyrir dansi.

Hrossaræktendur í firðinum bjóða gesti velkomna.

Fjölskyldan á Varmalandi í Sæmundarhlíð býður til að mynda gesti velkomna en þau eru með opið hús á föstudaginn 27.september milli klukkan 13:00 og 17:00. Þar verða þau með til sýnis og sölu tryppi, folöld og fulltaminn hross auk þess að sýna vatnsbretti og þurrkklefa sem eru á staðnum.

Opið hús verður einnig að Saurbæ á föstudaginn 27.september milli klukkan 14:30 og 17:30.

Á föstudaginn verður opið hús og hnakkakynning á Varmalæk 1. Húsið er opið frá klukkan 13:00-17:00. 

Þetta ásamt mörgu fleiru er á boðstólnum í Skagafirði og nágrenni næstkomandi helgi.