mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skagfirðingar bjartsýnir -

10. maí 2010 kl. 13:37

Skagfirðingar bjartsýnir -

Eiðfaxi var á ferð norðan heiða á dögunum og hitti margt skemmtilegt fólk. Þeirra á meðal var stórræktandinn Guðmundur Sveinsson á Sauðárkróki. Flestir þekkja þá feðga, Guðmund og föður hans Svein Guðmundsson. Þeir stunda saman ræktun, þó Sveinn sé nú að mestu hættur að vera með puttana í ræktuninni, og kenna hrossin sem fyrr við Sauðárkrók.

Eiðfaxi: Hvað ertu með mörg hross inni núna?

Guðmundur: Ég er með 18 hross inni. Þetta eru mest hryssur sem stefnt er með í dóm í vor ef þær verða frískar en líka einhver söluhross.

Eiðfaxi: En er ekki allt veikt hjá þér núna eins og öllum öðrum?

Guðmundur: Jú, við erum ekkert að ríða út. Við erum að hvíla öll hross eins og er.

Eiðfaxi: Sýnir þú hrossin sjálfur?

Guðmundur: Það er svona bæði og. Dóttir mín hún Svava, hefur nú verið að temja og þjálfa með mér í vetur með skólanum. Ég stefni á að sýna nokkrar hryssur sjálfur. Síðan er Sigurður Vignir Matthíasson með tvo stóðhesta fyrir mig sem einnig er stefnt með í dóm. Þeir eru báðir fimm vetra, undan Huginn frá Haga. Efnilegir? Jú, þetta eru hestefni tel ég.

Eiðfaxi: Hvað fáið þið mörg folöld á ári?

Guðmundur: Síðustu árin hafa það verið svona 12-14 folöld. 

Guðmundur teymdi út gríðarlega myndarlegan þriggja vetra fola sem ber nafnið Hvítserkur. Sá er undan Álfi frá Selfossi og Kná frá Varmalæk. Kná er undan Smára frá Skagaströnd og Kolbrúnu frá Sauðárkróki, sem aftur er undan Hrafnhettu gömlu frá Sauðárkróki og Hrafni frá Holtsmúla. Svo þar eru þeir feðgar að sækja í eigið blóð og skemmtilegan ættboga.

Eiðfaxi: Hvað er að frétta af hestagullinu henni Hvíta-Sunnu (S. 8.39, h. 8.65, a.e.8.55) sem margir muna eftir frá LM 2006?

Guðmundur: Það er allt gott bara. Hún er enn óköstuð en er fylfull við Krák frá Blesastöðum 1A. Fyrsta afkvæmi hennar kemur að öllum líkindum í dóm í vor. Það er Hátíð frá Sauðárkróki, 5 vetra hryssa undan Hróðri frá Refsstöðum og er hún í eigu Hannesar Sigurjónssonar og hefur verið í þjálfun hjá Erlingi Erlingssyni í vetur. Við eigum svo Sæsdóttur, sem kom undir á landsmótinuu 2006, og heitir Sækatla. Síðan er það Særún sem er fædd 2008, undan Aðli frá Nýjabæ og í fyrrasumar fæddist okkur hestur undan Hróðri.

Eiðfaxi: Hver væri draumaliturinn og kynið á folaldinu sem kemur í vor?

Guðmundur: Það væri brúnblesóttur hestur.

Eiðfaxi: Landsmótið á Vindheimamelum er á heimaslóðum Guðmundar og hann er einmitt í framkvæmdanefnd mótsins, sem og í stjórn Gullhyls, félagsins sem rekur mótsvæðið á Vindheimamelum. Auk þess er hann sitjandi formaður hestamannafélagsins Léttfeta. Það hlýtur því að vera í nógu að snúast þessa dagana?

Guðmundur: Já, það er allt á fullu. Það ríkir auðvitað svolítið óvissuástand hjá okkur hestamönnum núna. Hestahóstinn er að riðla kynbótasýningum sem og mótahaldi. En við höldum ótrauðir áfram með undirbúning landsmótsins og erum fullir bjartsýni á að það fari allt á besta veg. Það er alls ekki inn í myndinni eins og er að fresta sjálfu landsmótinu. Vissulega gætu orðið einhver afföll á erlendum gestum, í ljósi þess að á Íslandi er eldgos í gangi og mjög smitandi hestahósti sem herjar á hrossin okkar. En við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að skrúfa fyrir eldgosið og ráða niðurlögum hestahóstans.

Guðmundur segir Skagfirðinga hlakka til landsmótsins og lítur bjartsýnn til sumarsins.