þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjö hryssur hljóta heiðursverðlaun

9. október 2019 kl. 14:18

Það er mikill heiður hrossaræktenda að hryssur úr þeirra ræktun eða eigu hljóti heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

 

Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var birt í gær á Worldfeng. Mikil spenna ríkir á meðal hrossaræktenda um það hvernig ræktunargripir þeirra koma út í nýju kynbótamati. 

Ljóst er að sjö hryssur hljóta þann mikla heiður að fá heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

 

Nafn

Fjöldi sýndra afkvæma

Kynbótamat

Elding frá Torfunesi

5

123

Prýði frá Ketilsstöðum

5

119

Ópera frá Gýgjarhóli

5

118

Önn frá Ketilsstöðum

6

116

Pandra frá Reykjavík

5

116

Vænting frá Hruna

5

116

Elding frá Haukholtum

5

116

 

 

Elding frá Torfunesi stendur efst af þessum hryssum með 123 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og fimm dæmd afkvæmi. Elding er fædd árið 2003 og er því 16 vetra gömul. Ræktandi hennar er Baldvin Kristinn Baldvinsson en eigendur eru Torfunes ehf, Anna Fjóla Gísladóttir og Karyn B MC Farland. Elding er undan Djáknari frá Hvammi og Röst frá Torfunesi. Röst hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi 2016 ásamt móður sinni, Bylgju frá Torfunesi. Elding er því þriðji ættliður heiðursverðlaunahryssa. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Eldur frá Torfunesi sem hlaut m.a. 1.verðlaun fyrir afkvæmi á síðasta landsmóti. Faðir hans er Máttur frá Torfunesi.

Prýði frá Ketilsstöðum er með 119 stig í kynbótamatinu og fimm dæmd afkvæmi. Prýði er fædd árið 2001 og er því 18 vetra gömul. Ræktandi hennar er Jón Bergsson en eigandi er Ágúst Marinó Ágústsson. Prýði er undan Núma frá Þóroddsstöðum og Hlín frá Ketilsstöðum. Hæst dæma afkvæmi hennar er Sóllilja frá Sauðanesi sem er undan Glym frá Innri-Skeljabrekku

Ópera frá Gýgjarhóli hlýtur 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og á fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi hennar er Jón Olgeir Ingvarsson en eigendur eru Gæðingar ehf. Ópera er undan Kolskeggi frá Kjarnholti 1 og Gátu frá Gýgjarhóli. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Vala frá Efsta-Seli sem er undan Dug frá Þúfu í Landeyjum.

Önn frá Ketilsstöðum er einnig úr ræktun Jóns Bergssonar eins og Prýði en eigandi hennar er Gunnar Már Þórðarson. Önn er undan Hrímfaxa frá Hvanneyri og Oddrúnu frá Ketilsstöðum. Önn er með 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og á sex dæmd afkvæmi. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Þór frá Votumýri 2 sem er undan Álfi frá Selfossi.

Pandra frá Reykjavík hlýtur 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og á fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi hennar er Lena Zielinski en hún er einnig eigandi ásamt Hjarðartúni ehf. Faðir Pöndru er Kolfinnur frá Kjarnholtum I og móðir er Perla frá Ölvaldsstöðum. Hæst dæmda afkvæmi Pöndru er Dagmar frá Hjarðartúni, en hún vakti verðskuldaða athygli í flokki fjögurra vetra hryssa á Fjórðungsmótinu í sumar.

Vænting frá Hruna hlýtur 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og á fimm dæmd afkvæmi. Ræktendur og eigendur eru Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Helgi Gíslason. Faðir Væntingar er Aron frá Strandarhöfði og móðir er Þrá frá Kópareykjum. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Spaði frá Barkarstöðum sem var fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramótinu í Berlín en Spaði er undan Orra frá Þúfu.

Elding frá Haukholtum hlýtur 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og á fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi hennar er Magnús Helgi Loftsson en hann er eigandi ásamt Þorsteini Loftssyni. Faðir Eldingar er Hrynjandi frá Hrepphólum en móðir er Fjöður frá Haukholtum. Hæst dæmda afkvæmi Eldingar er Apollo frá Haukholtum en faðir hans er Arion frá Eystra-Fróðholti.

Eiðfaxi óskar ræktendum og eigendum þessarra hryssa til hamingju með glæsilegan árangur.