mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sindri frá Leysingjastöðum fallinn

Jens Einarsson
3. janúar 2011 kl. 08:41

Einn álitlegasti keppnishestur landsins í röðum stóðhesta

Stóðhesturinn Sindri frá Leysingjastöðum II er fallinn. Hesturinn drapst rétt fyrir jól. Í fyrstu var talið að hesturinn hefði veikst af hrossasótt, en við krufningu kom í ljós að bólgur í þörmum höfðu leitt til blóðeitrunar, sem leiddu hestinn til dauða. Á heimasíðu Lækjamóta kemur fram að orsökin er ókunn og að viðlíka tilfelli eru mjög sjaldgæf.

Sindri vakti fyrst athygli á FM2009 á Vesturlandi, þar sem hann keppti í B úrslitum í tölti og í A úrslitum í B flokki klárhesta. Hann keppti í B úrslitum í tölti á Íslandsmóti 2009 og fékk þá 8,00 í einkunn. Sindri var ekki með kynbótadóm en var án efa einn af álitlegustu keppnishestum landsins í tölti og fjórgangi. Knapi hans og þjálfari var Ísólfur Líndal Þórisson á Lækjamótum, reiðkennari á Hólaskóla.

Sindri var undan Stíganda  og Heiðu frá Leysingjastöðum II í Húnaþingi. Stígandi er undan Andvara frá Ey og Dekkju frá Leysingjastöðum, Adamsdóttur frá Meðalfelli. Heiða er undan Heiðari frá Meðalfelli, sem er undan Vordísi frá Sandhólaferju. Vordís er var því þreföld formóðir Sindra. Sindri á 23 skráð afkvæmi í WorldFeng.