föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Símtalið - Sindri Sigurðsson

6. janúar 2010 kl. 10:41

Símtalið - Sindri Sigurðsson

Sindri Sigurðsson tamningamaður og reiðkennari í Hafnarfirði, sigraði opna flokkinn á ísmóti Sörlafélaga í gær. Sindri stundar tamningar og þjálfun á Sörlasvæðinu ásamt konu sinni Friðdóru Friðriksdóttur. Eiðfaxi sló á þráðinn til Sindra og fékk fréttir af mótinu í gær og verkefnum líðandi stundar.

Sindri, til hamingju, þú sigraðir opna flokkinn á Hvaleyrarvatninu í gær. Hvernig var mótið?

Takk. Mótið var mjög skemmtilegt, frábært framtak og margir hestanna voru komnir í mjög gott form. Ég vona bara að það náist að halda annað svona ísmót í vetur. Ég skráði hryssu til leiks en mætti svo reyndar á Húmvari frá Hamrahóli. Hann þekkja margir, klárhestur undan Adam frá Ásmundarstöðum og Fiðlu frá Hvolsvelli.

Eruð þið löngu búin að taka inn?
Við vorum reyndar í Ameríku í þrjá mánuði í haust en tókum svo inn í byrjun nóvember og höfum verið að temja og þjálfa síðan. 

Hvað voruð þið að gera í Ameríku?
Við vorum hjá vini okkar sem býr í Boise Idaho. Hann er áhugamaður í hestamennskunni en á nokkuð góð hross og við vorum þar til að þjálfa hross og kenna líka.

Hvað er svo mest spennandi í hesthúsinu hjá ykkur í vetur?
Það er auðvitað Húmvar, svo erum við Sturlu frá Hafsteinsstöðum, Vikar frá Torfastöðum og Hrannar frá Þorlákshöfn. Við erum líka með efnilegan stóðhest undan Sabínu frá Vatnsleysu og Parker frá Sólheimum. Hann heitir Snjall og er mjög efnilegur alhliða hestur. Nú, svo erum við með efnilega Hágangsdóttir og Orradóttir.

Eruð þið sjálf eitthvað að rækta? Eitthvað sem þið eruð með inni?
Já svona aðeins. Við erum með hryssur undan Óttari frá Hvítárholti og Leikni frá Vakurstöðum. Þær eru spennandi en tíminn mun leiða í ljós hvert stefnan verður tekin með þær.

En hvert er stefnt með gæðingana sem þú taldir upp áðan?
Við stefnum með þá í gæðingakeppni í vor og vonandi á Landsmót! Við förum með Húmvar í B-flokk og Sturlu, Vikar og Hrannar í A-flokk. Við hjónin munum skipta þeim einhvern veginn á milli okkar.

Hvernig er starfi ykkar háttað í vetur?
Við erum að kenna Knapamerki 3-5 hér í Sörla og einhver meiri kennsla er nú í gangi, einkatímar og fleira þess háttar. Svo eru það tamningar og þjálfun, við erum með fullt hús af hrossum svo það er nóg að gera!

Sækið þið sjálf reiðkennslu af einhverju tagi?
Ahh, það mætti nú vera meira gert af þvi. Vonandi náum við að gera það á þessu nýja ári, segir Sindri og kveður með þeim orðum.

Eiðfaxi þakkar Sindra fyrir spjallið og óskar þeim hjónum góðs gengis í hestamennskunni á komandi misserum.