miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sigurður Sigurðarson er knapi ársins

10. nóvember 2009 kl. 13:32

Sigurður Sigurðarson er knapi ársins

Það var sannkölluð hátíðarstemning á Broadway á laugardagskvöldið var, þegar Landssamband hestamannafélaga og Félag hrossabænda héldu glæsilega uppskeruhátíð sína. Veitt voru verðlaun, slegið á létta strengi, Björk Jakobs kom og skemmti lýðnum og sló í gegn að margra mati og síðan var dansað fram á rauða nótt.

Veislustjóri var Hermann Árnason og stóð hann sig með miklum sóma. Sérstaklega var skemmtilegt þega hann bað þá Guðlaug Antonsson og Kristinn Guðnason að koma upp á svið því nú skyldu þeir dæmdir sem kynbótagripir. Áhorfendur hlógu mikið þegar hann sagði að Guðlaugur væri með góðan háls en heldur rýran afturhluta og Kristinn væri myndareintak, vel í holdum og í heildina mikið myndarsvið!

Sigurður Sigmundsson hlaut heiðursverðlaun LH að þessu sinni. Siggi í Syðra, eins og hann er oft kallaður, hefur um áratugaskeið sinnt fréttum að hestamennsku og hrossarækt af miklum metnaði og áhuga. Hann hefur skrifað fyrir marga miðla, þar á meðal Eiðfaxa. Siggi á eftir langan feril sinn sem ljósmyndari, gríðarlega mikið og verðmætt safn ljósmynda sem eru fjársjóður fyrir hestamennskuna. Eiðfaxi óskar Sigga innilega til hamingju með viðurkenninguna, sem hann er sannarlega vel að kominn.

Siggi Sig eins og flestir þekkja kappann, hlaut hinn eftirsótta titil "Knapi ársins" á Uppskeruhátíð hestamanna á Broadway í gærkvöldi. Siggi var tilnefndur til verðlauna í fimm flokkum af sex. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu, sýndi 16 kynbótahross í 1.verðlaun og varð þriðji í slaktaumatölti á HM í Sviss í sumar. Hann var framarlega í flestum flokkum móta hér heima og er frábær fyrirmynd.

Linda Rún Pétursdóttir var valin efnilegasti knapinn. Hún stóð sig glæsilega á HM í Sviss á hestinum Erni frá Arnarstöðum, sem og á mótum hér heima í sumar.

Erlingur Erlingsson er kynbótaknapi ársins. Hann sýndi mörg glæsileg kynbótahross til hárra einkunna á árinu og má þar nefna Tenór frá Túnsbergi. Tenór hlaut 9,15 fyrir hæfileika og 8,61 í aðaleinkunn.

Sigurbjörn Bárðarson átti glæsilegt skeiðsumar og náði glæsilegum tímum í 150m og 250m skeiði. Tímar hans á Óðni frá Búðardal (14,15 sek í 150m) og Flosa Keldudal (22,47 í 250m) frá Meistaramóti Andvara eru nú skráðir sem þeir bestu sem náðst hafa á rafrænan tímatökubúnað.

Gæðingaknapi ársins er Guðmundur Fr. Björgvinsson. Hann náði frábærum árangri í sumar og hlaut hæstu einkunn sem gefin var í gæðingakeppni í ár, 9,17.

Tveir íþróttaknapar voru krýndir í ár. Þau Jóhann R. Skúlason og Rúna Einarsdóttir-Zingsheim hlutu bæði titilinn. Jóhann varð heimsmeistari í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum og keppti víða í Evrópu í sumar auk þess sem hann sýndi heimsmeistara í flokki 5v stóðhesta á HM, Viktor fra Diisa. Rúna náði silfri í slaktaumatölti og fimmgangi á HM og varð heimsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum á mótinu.

Eiðfaxi óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með glæislegan árangur og verðskuldaðar viðurkenningar.