fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sigurbjörn leggur til breytingar

14. desember 2009 kl. 11:58

Sigurbjörn leggur til breytingar

Sigurbjörn Bárðarson er enginn nýgræðingur í hestamennskunni. Hann hefur tekið þátt í öllum mögulegum keppnum á íslenskum hestum um áratugaskeið og er einn af okkar alreyndustu reiðmönnum. Sigurbjörn sigraði Meistaradeild VÍS á síðasta keppnistímabili með miklum glæsibrag og var hestakostur hans í deildinni sérlega glæsilegur.

Sigurbjörn, hvernig leggst komandi tímabil í Meistaradeildinni í þig?
„Það leggst mjög vel í mig. Ég horfi björtum augum á tímabilið og er farinn að spá og spekúlera í hestakostinn sem ég mun tefla fram í vetur. Það verða óhjákvæmilega einhverjar breytingar á honum frá því síðast. Ég mun þó vera með sama kjarnann, maður byggir á sterkum stoðum, þó ég sé nú ekki búinn að skipa hesta í öll sætin.“

Sigurbjörn situr í knaparáði Meistaradeildarinnar en það gera þeir sem lentu í þremur efstu sætunum frá síðasta keppnistímabili. Knaparáðið er skipað til að vaka yfir hagsmunum knapa, hvað varðar leikreglur og framkvæmd mótaraðarinnar. Einn knapi úr þessu ráði situr stjórnarfundi deildarinnar og hefur tillögurétt. Sigurbjörn, þú komst með athugasemdir varðandi framkvæmd keppninnar og lagðir fram nýjar hugmyndir á aðalfundinum um daginn. Um hvað snérust þær?
„Í fyrsta lagi var sterkur vilji knapa fyrir því að færa mótin framar, þ.e. byrja fyrr í vetur og klára fyrr í vor. Þannig yrði komið í veg fyrir að mótaröð Meistaradeildarinnar myndi skarast inná önnur keppnis- og sýningartímabil. Í framhaldinu kom upp sú umræða að fækka jafnvel um eina keppnisgrein og þá sleppa smalanum og spurningarmerki jafnframt sett við þá grein, hvort hún ætti rétt á sér inni í þessari mótaröð. Þessum vangaveltum var vísað til stjórnar til skoðunar, þ.e. að sleppa smalanum og verður haldinn annar fundur þegar stjórnin hefur farið vel yfir þetta.
Í öðru lagi kastaði ég fram hugmyndum mínum um keppnisgreinina gæðingafimi. Þessi grein er mér mjög hugleikin, hún er vinsæl, hestvæn og hún á mikið erindi inni í Meistaradeildinni. Hins vegar verðum við að átta okkur á því að það er einungis keppt í henni einu sinni á ári og því ljóst, að enginn dómari nær hvorki þjálfun né færni í að dæma hana. Þetta form er því fjarlægt okkar ágætu dómurum og því eru þeir ekki nægjanlega í stakk búnir til að dæma greinina. Deildin er Meistaradeild og á ekki að vera með tilraunastarfsemi og standa í því að þjálfa upp dómara með mismunandi skoðanir á því hvernig ríða eigi tilteknar æfingar, til að dæma þetta einu sinni á ári. Í deildinni eru knapar sem leggja allt undir og því mikið í húfi fyrir þá að vel sé staðið að öllum þáttum. Ég lagði því til að fagmenn frá Háskólanum á Hólum myndu fullskapa þessa grein, setja knöpum ramma til að vinna eftir og setja saman sína gæðingafimisýningu. Þetta myndi að mínu áliti, skapa faglega grein og leysa þá örðugleika sem fylgt hafa henni til þessa. Síðan myndu dómarar koma frá Hólum og dæma hana. Þetta verður framgangi hestamennskunnar til sóma og aðstandendum deildarinannar sömuleiðis. Eins og ég sagði áðan, er ég mjög hlynntur greininni en ég tel nauðsynlegt að tekið verði á framkvæmd hennar.  Greinin á ekki að vera fimiæfingasýning, heldur GÆÐINGA-FIMI, þ.e. við viljum sýna fallegt samspil gangtegunda og æfinga gæðingsins okkar.“

Þú ert líka með ákveðnar skoðanir á því hvort ríða skuli B-úrslit á mótum deildarinnar, eða að minnsta kosti hvort sigurvegari þeirri skuli í framhaldinu ríða A-úrslit?
„Já, það er rétt. Ég hef lent í því að ríða B-úrslit og fara upp í A-úrslit þaðan og að fenginni reynslu er of lítill tími á milli þessara úrslita á mótum Meistaradeildarinnar. Þetta er alltof mikið álag á hestinn og það grundvallast ekki bara af þeim árstíma sem deildin fer fram á, snemma vetrar. Við erum að ríða innandyra við þröngar og erfiðar aðstæður og hestarnir eru í miklum pelsi í hlýjum húsunum. Tvenn úrslit á svo stuttum tíma er of mikið fyrir hestinn. Það er algjört lágmark að hesturinn fái tveggja tíma hvíld á milli svo mikilla átaka.  Ég lagði til að B-úrslit yrðu hugsuð upp á nýtt. Að sex knapar riðu A-úrslit en sigurvegari B-úrslita færðist ekki upp í A-úrslitin, vegna forsenda hestsins sem ég talaði um áðan, heldur fengi hann stig í samræmi við stigagjöfina í A-úrslitunum. Maður gæti hugsað sér að hann fengi jafn mörg stig og hesturinn sem lendir í 6.sæti í A-úrslitunum. Þannig höfum við velferð hestsins að leiðarljósi, því forsjárhyggja er nauðsynleg. Knöpum hleypur mikið kapp í kinn inni á vellinum og það verður að hafa vit fyrir þeim. Maður teymist svo langt á keppnisskapinu.“

Sigurbjörn segir að lokum að deildin sé frábær en jafnframt erfiðasta keppnisfyrirkomulag sem hann hafi tekið þátt í og það sé gríðarleg áskorun fyrir knapa vera með í henni.

„Það er löngu orðið tímabært að LH geri sér grein fyrir tilurð Meistaradeildarinnar og viðurkenni keppnisfyrirkomulag hennar til jafn við það sem fyrir er hjá LH.“

Eiðfaxi þakkar Sigurbirni fyrir spjallið og veltir um leið fyrir sér hvers vegna Landssambandið hafi ekki nú þegar gert það? Það er keppt eftir reglum FEIF að öllu leyti, nema hvað vallarstærðina varðar auðvitað, það er gríðarlegur metnaður í gangi, bæði hjá knöpum og aðstandendum deildarinnar og fyrirkomulagið vinsælt hjá áhorfendum. Getur Landssambandið skellt skollaeyrum við því að viðurkenna innanhússkeppnir af þessu tagi? Hvernig stendur á því að árangur knapa í Meistaradeildinni nær ekki inn á afrekaskrá þeirra þegar verið er að velja knapa ársins? Er þetta ekki keppni eins og hver önnur íþróttakeppni? Maður spyr sig...