sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Siggi Sig meistaraknapi 2011

8. apríl 2011 kl. 11:01

Freydir hljóp með Sigga á toppinn í Meistaradeild í hestaíþróttum 2011.

Sigurbjörn saumaði hart að honum

Meistaraknapi ársins 2011 í Meistaradeild í hestaíþróttum (á Suðurlandi) er Sigurður Sigurðarson. Hann hafði gott forskot fyrir lokamótið, sem fram fór í Ölfushöll í gærkvöldi. Sigurbjörn Bárðarson, meistari 2009 og 2010, saumaði þó hart að honum á lokasprettinum og þegar upp var staðið munaði aðeins einu og hálfu stigi á þeim félögum, sem báðir kepptu í liði Lýsis.

Keppt var í slaktaumatölti og hraðaskeiði í gegnum höllina. A úrslit í slaktaumatöltinu voru á háum standard, miðað við aðstæður, en knappur völlurinn hefur greinileg stressandi áhrif á hrossin á slaka taumnum. Þau virðast flýta sér meir en á löglegum útivelli, hvort sem það er sjónhverfing eða ekki.

Úrslitin urðu nokkuð óvænt. Jakob Svavarsson var efstur eftir forkeppnina á Al frá Lundum. Þeir eru Íslandsmeistarar í greininni 2010. Árbakkahjónin komu hins vegar vel undirbúin til leiks á vel þjálfuðum og góðum hestum. Leikslok urðu þau að Hulda bar sigur úr býtum á hinum taktvissa og öfluga töltara Sveig frá Varmadal, Jakob annar á Al og Hinrik þriðji á íslandsmeistaranum í fimmgangi, Glym frá Flekkudal. Sigurður Sigurðarson fékk ekkert stig í slaktaumatöltinu, sem opnaði keppnina enn meir fyrir keppinautum hans, einkum Sigurbirni, sem náði inn í A úrslitin á Jarli frá Búðardal.

Úrslit í hraðaskeiðinu voru í sjálfu sér ekki óvænt, en þó ekki gefin. Aðal skeiðhestur Sigurbjörns í þessari grein, Óðinn frá Búðardal, var meiddur. En hann á annan fljótan, Flosa frá Keldudal, sem brást ekki meistaranum. Eftir forkeppni var Guðmundur Björgvinsson á Gjálp frá Ytra-Dalsgerði með besta tímann, 5,78 sekúndur, og Sigurbjörn annar á 5,80 sekúndum. Sigurður var einnig með góða stöðu á Freyði frá Hafsteinsstöðum, sem hljóp á 5,94, og var ennþá efstur að stigum.

En í úrslitum hefst ný keppni og stigin úr þeim tveimur hlaupum gilda til úrslita. Bæði Sigurður og Sigurbjörn fengu góðan tíma í fyrri sprettinum. Í þeim seinni lá Freyðir ekki en Flosi jafnaði tíma sinn úr forkeppninni og hljóp á 5,80, og færði Sigurbirni gull í hlaupinu. Vel af sér vikið hjá  þeim gamla. Fimm keppendur náðu betri tíma en Sigurður í úrslitunum. Í lokin munaði því ekki nema einu og hálfu stigi á Sigurði og Sigurbirni og óhætt að segja að hurð hafi skollið nærri hælum hjá Sigga. En í þetta skiptið komu ekki upp nein vafamál. Siggi er meistaraknapi í Meistaradeildinni 2011.

Úrslit má finna á www.meistaradeild.is