sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Siggi Sig kaupir hryssur

Jens Einarsson
20. desember 2010 kl. 12:07

Framúrskarandi kynbótahryssa vart metin til fjár

Sigurður Sigurðarson lætur ekki krepputal hrossapest slá sig út af laginu. Hann hefur oft verið stórtækur í hestaviðskiptum. Undanfarna daga hefur gengið orðrómur um að hann hafi keypt nokkrar fyrstu verðlauna hryssur fyrir tugi milljóna.

Sigurður segir að orðrómurinn sé nokkuð orðum aukinn en fyrir honum sé þó flugufótur. „Það er rétt að ég hef verið að bæta í hryssustofninn hjá mér. Ég get nefnt Hendingu frá Minni-Borg, fyrstu verðlauna klárhryssu undan Breka frá Hjalla og síðan keypti ég helminginn í Æsu frá Flekkudal af Guðnýju Ívarsdóttur í Flekkudal, en við eigum Pyttlu móður hennar saman. Æsa er fylfull við Kjarna frá Þjóðólfshaga 1 og Hending fylfull við Álfi frá Selfossi. Ég er að skoða fleiri hryssur en það eru ennþá bara þreifingar.“

Hryssuhópurinn á Þjóðólfshaga 1 er einhver sá verðmætasti á einu hrossabúi í Íslandshestaheiminum. Í honum eru um 20 verðlauna hryssur. Þar af eru fjórar með 9,5 fyrir tölt, tvær eru Íslandsmeistarar í tölti og ein á heimsmet í 100 metra skeiði.

„Við höfum lagt aðal áherslu á að koma okkur upp góðum undaneldishryssum. Að okkar mati er það grundvöllurinn fyrir arðssemi hrossaræktarbúsins. Áhættan í að fjárfesta í úrvals hryssum er ekki svo mikil þegar á allt er litið. Það er auðveldast að selja þær, og eða afkvæmi þeirra, ef á þarf að halda. Framúrskarandi kynbótahryssa verður vart metin til fjár, eins og dæmin sanna. Ein slík getur skipt sköpum fyrir hrossaræktarbú,“ segir Sigurður.