mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Siggi Sæm. hvetur til fróðleiksþyrsta að koma undirbúið á laugardag

16. desember 2011 kl. 09:27

Siggi Sæm. hvetur til fróðleiksþyrsta að koma undirbúið á laugardag

„Þetta er stórmerkilegur viðburður og einstakt tækifæri fyrir hestamenn að  fá innsýn inn í hugmyndafræði tveggja knapa sem hafa í gegnum árin sýnt  yfirburðarhæfileika á sínum sviðum,“ segir Sigurður Sæmundsson fyrrverandi landsliðseinvaldur sem hefur vitanlega fengið að kynnast aðferðum meistaranna Rúnu Einarsdóttur-Zingsheim og Jóhanni R. Skúlasyni vel í gegnum árin, en þau munu halda fyrirlestra á fræðslukvöldi sem Félag Tamningamanna stendur fyrir nk. laugardagskvöld.

Sigurður sparar ekki fögru orðin í garð knapanna. „Rúna, þessi gríðalegi vinnuþjarkur, setti í raun ný viðmið varðandi hreinleika kringum hrossin. Hrossin eru fallega sýnd og vel þjálfuð hjá henni. Maður sá þetta strax í störfum hennar á stóðhestastöðinni, svo hélt þetta áfram eftir að hún flutti út. Rúna er hafsjór af fróðleik, fyrirlestrarnir hennar eru fluttir frá innstu hjartarótum og af miklum heiðarleika. Það er í raun lífsreynsla að hlusta á hana. Það hvað Jói hefur gert í þjálfun og uppbyggingu tölthesta setur hann á sérstakan stall meðal íslenskra þjálfara. Þegar maður hlustar á  Jóa tala um þjálfunina þá sér maður hversu ofboðslega djúpt hann fer í uppbyggingu hennar, hvað hann gerir miklar kröfur til sjálfs síns og hvernig hann nálgast hana alltaf á forsendum hestsins. Það kom mér verulega á óvart  hvað hann er fræðilega þenkjandi. Hann opnaði fyrir mér alveg nýjar víddir þegar hann fór að skýra út hvað hann væri að gera,“ segir Sigurður sem segir mikinn happafeng af komu þeirra hingað, nú í upphafi æfingartímabilsins. „Ég hvet alla þá sem hafa áhuga að fá innsýn í hugmyndafræði þessara toppreiðmanna að koma , þá sem langar að heyra hvað skapi þennan mikla árangur, hvað það sé sem þau eru að gera. Í svona fyrirlestrum er útilokað að koma öllu á framfæri. Það verður því gestanna að koma þannig undirbúnir að þeir séu tilbúnir, því að loknum fyrirlestrum verður opnað fyrir spurningar. Þeim sem þyrstir í fróðleik, þeir sem vilja læra af Rúnu og Jóhanni ættu því að mæta. Hinir sem eru ágætlega sáttir með sína þekkingu, eiga bara að fara í jólahlaðborð í staðinn.“

Fræðslukvöldið með Rúnu og Jóhanni fer fram í Harðarbóli,félagsheimili Harðar í Mosfellsbæ og hefst kl. 18 á laugardag. Aðgangseyrir er kr. 1.500 - en frítt inn fyrir skuldlausa félaga í FT.

Þessu tengt: